139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[13:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þannig er búið um hnútana um þetta mál í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra, á sama hátt og í gildandi sveitarstjórnarlögum, að skilgreint er fyrir allar mismunandi stærðir sveitarfélaga hversu margir fulltrúar eiga þar að vera að lágmarki og að hámarki. Þannig hefur það verið í lögum um langt skeið og því er haldið í frumvarpi hæstv. innanríkisráðherra.

Spurningin sem Alþingi þarf að taka afstöðu til er hvort það eigi að vera eitthvert pínulítið samræmi milli sveitarfélaganna í landinu í því hversu margir íbúar eru á bak við hvern kjörinn fulltrúa og hvort eitthvert jafnræði eigi að vera í því gagnvart íbúum sveitarfélaganna. Eins og staðan er í dag er mikill halli í þessu efni hvað varðar Reykjavík. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að færa Reykjavík niður á sama stig og gildir á Alþingi, þ.e. að það séu nálægt 5 þúsund íbúar á hvern kjörinn fulltrúa í Reykjavík að lágmarki en öll önnur sveitarfélög í landinu eru með (Forseti hringir.) frá 50 og upp í 2.500 íbúa á hvern kjörinn fulltrúa. Þetta er mikið misræmi, mikill lýðræðishalli, og ég trúi því ekki að lýðræðis- og jafnaðarflokkurinn Samfylkingin og þeir sem sitja á þingi fyrir þann flokk (Forseti hringir.) ætli að styðja þessa tillögu.

(Forseti (RR): Forseti áminnir hv. þingmenn um að virða þann tíma sem þeim gefst hér til að fjalla um atkvæðagreiðsluna.)