140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Góðir landsmenn. Virðulegi forseti. Bankahrunið bjó til sögulegt tækifæri til að koma á samfélagi þar sem ríkir heiðarleiki, réttlæti og jafnrétti. Almenningur safnaðist saman á Austurvelli til að krefjast breytinga á kerfi sem alið hafði af sér spillingu og bóluhagkerfi. Stjórnarskipti urðu og við tók hin svokallaða norræna velferðarstjórn sem kosin var á grundvelli kosningaloforða um að skjaldborg yrði slegin um heimilin, byrðum fjármálakreppunnar dreift á sanngjarnan hátt og velferðarkerfið varið.

Nú þremur árum eftir bankahrunið hreykir norræna velferðarstjórnin sér af dugnaði við hreingerningarnar. Þvert á spár gagnrýnenda hafi tekist með auknum álögum á skattgreiðendur niðurskurði velferðarþjónustunnar og gagnslausum skuldaaðgerðum að afstýra greiðsluþroti ríkissjóðs. Slíkar fullyrðingar sýna að lítið hefur breyst eftir hrun. Gagnrýni á stefnu stjórnvalda er svarað með upphrópunum og útúrsnúningum. Kosningaloforðin voru svikin um leið og sest var í ráðherrastólana. Byrðum fjármálakreppunnar hefur verið komið á herðar þeirra sem veikastir voru fyrir. Þúsundir hafa misst vinnuna og er gert að lifa á bótum sem ekki duga til framfærslu. Aðrar þúsundir hafa markvisst verið gerðar eignalausar í gegnum verðtrygginguna og skuldalausnir sem magna upp skuldavandann og mismuna einstaklingum. Endurreisn gamla kerfisins og gömlu klíkanna er verið að ljúka og erlendir aðilar dásama árangur norrænu velferðarstjórnarinnar og AGS. Á sama tíma mótmæla þúsundir manna kosningaloforðasvikunum fyrir utan Alþingishúsið og krefjast leiðréttingar lána og afnáms verðtryggingar.

Norræna velferðarstjórnin fórnaði tækifærinu sem gafst til að ná fram sanngjarnri leiðréttingu lána með því að endurreisa bankakerfið á forsendum kröfuhafa en ekki fólksins í landinu. Skuldakreppa var búin til þegar kröfuhöfum var tryggð hlutdeild í hagnaði bankanna af skuldaaðgerðum sem auka skuldsetningu fólks og í betri endurheimtur hjá eignalausu fólki. Efnahagsáætlun norrænu velferðarstjórnarinnar og AGS er ein sú dýrasta sem sögur fara af. Kostnaðurinn birtist í minni hagvexti á síðasta ári og þessu ári og mun meiri niðurskurði velferðarkerfisins en þörf var á. Eftir hrun var slegið Evrópumet í vaxtastigi og verðtryggingunni viðhaldið. Fjármagna þurfti hallarekstur ríkissjóðs á allt of háum vöxtum og nú þarf að vega að grunnstoðum velferðarkerfisins til að eiga fyrir vaxtaútgjöldum. Í stað þess að læra af reynslu annarra þjóða sem farið hafa í gegnum fjármálakreppu hefur norræna velferðarstjórnin gripið til gamalkunnra aðgerða sem tryggja fyrst og fremst hagsmuni fjármagnseigenda og draga úr umsvifum velferðarkerfisins. Aðgerðir sem nú þegar hafa aukið misskiptinguna í samfélaginu og dregið úr efnahagslegri velferð.

Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða sem ekki aðeins ganga út á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum heldur tryggja okkur norrænt velferðarkerfi. Slík aðgerð er t.d. skattur á tekjuauka útflutningsfyrirtækja sem ein njóta góðs af því að gengi krónunnar er allt of lágt. Þannig má afla tekna til að komast hjá því að leggja niður sjúkrastofnanir og segja upp fólki.

Góðir landsmenn. Í stað þess að verja hagsmuni almennings leggur ríkisstjórnin metnað sinn í að fá hrós frá AGS og alþjóðaauðvaldinu fyrir að hafa varið hagsmuni fjármagnseigenda. Ríkisstjórnin er rúin trausti almennings sem situr fastur í skuldasúpunni og á launum/bótum sem duga ekki til framfærslu. Ekkert á að gera til að breyta því. Það er kominn tími á uppstokkun.