140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:55]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Góðir Íslendingar. Það fer ekki milli mála að sumir halda að lífið snúist um peninga. Því er fróðlegt að skyggnast aftur í tímann og skoða hver staða þjóðarinnar var áður fyrr. Við höfum nefnilega séð það töluvert svartara í þessu landi. Við skulum, með leyfi forseta, líta á ástandið eins og það var á Íslandi fyrir 90 árum. Í bókinni Afbrigði og útúrdúrar eftir Kjartan Sveinsson skjalavörð segir:

„Sumarið 1921 var stundum ekki meir en dagsforði í ríkissjóði. Allur togaraflotinn, 46 skip, lá bundinn í höfn, ekki eitt einasta hús var í byggingu í Reykjavík og þeir menn sem útskrifuðust úr skólum áttu hvergi athvarf og voru þeim allar dyr lokaðar.“

Já, við höfum séð það svartara en árið 2011, góðir Íslendingar. Í upphafi 19. aldar mátti kynslóðin sem hóf sjálfstæðisbaráttuna búast við meðallífslíkum upp á 32 ár konur en karlar 28 ár. Þetta var kynslóð Jónasar Hallgrímssonar og Skáld-Rósu. Þetta var kynslóðin sem lagði grunn að því frelsi og sjálfstæði sem við búum við í dag, frelsi sem við teljum að séu sjálfsögð mannréttindi. Fátækt, basl og styrjaldir mótuðu umhverfi og líf þeirra kynslóða sem næst á undan okkur komu.

Við sem nú byggjum þetta land höfum fengið að lifa uppgangstíma með friði í okkar heimshluta í meira en 60 ár. Við erum ekki lengur fátækasta þjóð í Evrópu, við erum ein af þeim ríkari. Hungursneyð þekkjum við aðeins úr sjónvarpinu. Offita er helsta heilbrigðisvandamál þessarar þjóðar. Svo að ef lífið snýst um peninga ættum við að ljóma af lífshamingju yfir arðsemi sem þjóðarbúinu okkar hefur fylgt í meira en hálfa öld. En þrátt fyrir alla þessa auðsæld vantar mikið upp á að hér sé bros á hverju andliti. Þrátt fyrir allt eigum við meira en dagsforða í ríkissjóði. Við eigum auðlindir og dugandi mannskap, við höfum svo sannarlega séð það svartara. Hvernig stendur eiginlega á því að ekki skuli ríkja meiri hamingja og samkennd í þessu litla en sterkefnaða landi? Það er vegna þess að fólk óttast að það þjóðfélag sem nú rís úr rústum sé allt of líkt því þjóðfélagi sem hrundi. Verkinu er ekki lokið. Það þjóðfélag var ekki réttlátt þjóðfélag heldur þjóðfélag misskiptingar auðsins. Það var gerviheimur, þar réðu allt-í-plati-peningar. Við þurfum að reisa nýtt og betra þjóðfélag, sanngjarnt þjóðfélag þar sem jöfnuður ríkir, þar sem sár fátækt þekkist ekki og takmarkalaust ríkidæmi ekki heldur.

Ég og fleiri þingmenn höfum talað fyrir því að stökkbreytt húsnæðislán heimilanna væru gerð að forgangsmáli við endurreisnina. Það hefur ekki náð fram að ganga enn þá, kannski vegna þess að vald Alþingis, vald ríkisstjórna, nær ekki yfir voldugar fjármálastofnanir. Sé það ástæðan þarf Alþingi að taka á honum stóra sínum og sýna þeim sem með auðinn fara í þjóðfélaginu að auðlegð án þjóðfélagslegrar samábyrgðar verður ekki liðin framvegis í þessu landi.

Við höfum oft sé það svartara en núna krefjumst við sanngirni, fyrst og fremst sanngirni. Samfélag verður best mælt af því hvernig það kemur fram gagnvart börnum og gömlu fólki, hin eina sanna úrvalsvísitala er hagsæld fjölskyldunnar. Allir eiga að leggja sitt af mörkum. Öll eigum við að líta á það sem skyldu okkar við framtíðina að gera okkar besta og koma Íslandi á réttan kjöl.