140. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2011.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Mótmælin nú og mótmælin á laugardaginn eru til merkis um að ríkisstjórnin er á villibraut og forgangsröðun er röng. Ráðherrar virðast í auknum mæli vera í mjög litlum tengslum við fólkið í landinu. Talað er um að ástandið í íslensku samfélagi sé gott, atvinnuleysið hafi minnkað mjög mikið, fjöldi starfa sé væntanlegur og búið sé að gera svo mikið fyrir skuldsett heimili að nú verði ekki meira gert.

Það undirstrikar einnig blindni ríkisstjórnarinnar þegar ítrekað er talað um að ESB-umsókn með milljarðafjáraustri sé lausn allra mála. Þegar betur er að gáð sést að margar þessar yfirlýsingar standast ekki skoðun. Á sama tíma og ríkisstjórnin talar um að atvinnuleysi hafi minnkað berast okkur fréttir af því ítrekað að Íslendingar ákveði að flytja til útlanda í stórauknum mæli í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Um sjö þúsund manns hafa flutt af landi brott síðustu tvö ár og við erum að upplifa mestu brottflutninga sem orðið hafa frá því að Íslendingar fluttu til Vesturheims í lok 19. aldar. Ekkert bendir til viðsnúnings í því efni og ef fram fer sem horfir er ekki ólíklegt að ríkisstjórninni takist því miður að slá þetta 120 ára gamla Íslandsmet.

Af samtölum við atvinnurekendur í fjölmörgum atvinnugreinum, stóra sem smáa, er ljóst að mörg fyrirtæki munu þurfa að grípa til uppsagna á næstunni vegna aukins samdráttar. Margir hafa reynt að koma þessu á framfæri. Enginn hefur hins vegar talað fyrir því að atvinnurekendur, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, eigi að eiga sæti við ríkisstjórnarborðið. Það er þó hugsanlegt að hæstv. forsætisráðherra væri ögn betur upplýst um þann mikla vanda sem blasir við mörgum fyrirtækjum ef hún væri tilbúin að hlusta og horfast í augu við staðreyndir sem verið er að benda á.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórninni hefur gengið mjög illa að auka samkeppnishæfni landsins. Nýlegar fréttir þess efnis að fjárfestar líti svo á að Ísland sé mjög áhættusamt ríki til fjárfestinga vegna pólitísks óstöðugleika gæti hugsanlega verið einhver skýring á vandanum.

Góðir landsmenn. Á sama tíma og ríkisstjórnin talar um að búið sé að gera mikið fyrir skuldsett heimili landsins berast okkur fréttir af því að einungis sé búið að nýta lítið brot af því sem mögulegt var til afskrifta fyrir almenning.

Fyrir um ári myndaðist þrýstingur, ekki svo ólíkur þeim sem hefur verið undanfarna daga, um að ráðast í almennar leiðréttingar á lánum heimilanna. Forsætisráðherra boðaði fund eftir fund í Þjóðmenningarhúsinu þar sem átti að taka á skuldavandanum. Með málþófi, töfum og fleiri fundum tókst ríkisstjórninni að svæfa málið og niðurstaðan voru miklar og glæstar umbúðir utan um svo sem ekki neitt.

Góðir landsmenn. Nú þarf almennar aðgerðir í þágu skuldsettra heimila. Nú er ekki nóg að segjast vilja afnema verðtrygginguna líkt og forsætisráðherra gerði nýverið í Kastljóssviðtali. Orðum verða að fylgja efndir. Það verður að setja þak á verðtrygginguna og leggja fram tímasetta áætlun um afnám hennar.

Tillögur um þak á verðtrygginguna hafa verið lagðar fram á Alþingi en því miður hafa þær ekki fengið brautargengi. Nú hafa 34 þúsund manns skorað á ríkisstjórnina að grípa til þessara og fleiri aðgerða fyrir skuldsett heimili. Ég fullyrði varðandi fjárlagafrumvarpið, sem nú hefur verið dreift, að gríðarlega mikilvægt er að það nái fram að ganga, þak verði komið á verðtrygginguna áður en það frumvarp nær fram að ganga.

Góðir landsmenn. Það er bláköld staðreynd að ríkisstjórninni hefur að mörgu leyti mistekist að taka á skuldavanda heimilanna og koma atvinnulífinu af stað. Því lengur sem þetta ástand varir, þeim mun tíðari verða fréttir af gjaldþrotum einstaklinga, niðurskurði í velferðarkerfinu, heimilum sem eiga ekki fyrir matarinnkaupum og af Íslendingum sem flytjast til útlanda.

Eftir hrun áttum við Íslendingar mikil tækifæri að vinna okkur hratt upp úr efnahagslægðinni og koma í veg fyrir þessa þróun. Nú má ekki meiri tími tapast. Það þarf aðgerðir til lausnar á skuldavanda heimilanna, það þarf að afnema verðtrygginguna, efla innlenda framleiðslu, auka hagvöxt og draga úr atvinnuleysi. Ég er þess fullviss að hægt er að ná sátt bæði á Alþingi og meðal þjóðarinnar um að skapa umgjörð fyrir þær áherslur.