140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[10:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012. Með því legg ég fram mitt þriðja fjárlagafrumvarp á þessu kjörtímabili þó að í raun og veru væri rétt að tala um hálft fjórða frumvarp miðað við þær viðamiklu aðgerðir sem ráðist var í á sviði ríkisfjármála á miðju ári 2009 með virkni á síðari hluta ársins. Af þessum frumvörpum held ég að hljóti að mega fullyrða að þetta teljist það mildasta þegar horft er til umfangs þeirra aðgerða sem í því birtast. Þannig eru aðgerðir bæði á útgjalda- og tekjuhlið mun umfangsminni en verið hefur í tveimur eða þremur fyrri tilvikum og verður það nánar skýrt hér á eftir. Frumvarpinu fylgir að þessu sinni jafnframt skýrsla um ríkisfjármálastefnu næstu ára, Ríkisbúskapurinn 2012–2015. Skýrsla um áætlun í ríkisfjármálum, og kemur það rit í raun í staðinn fyrir hið hefðbundna fyrra hefti eða litla hefti sem venjulega hefur fylgt fjárlagafrumvarpi undanfarin ár með flestum þeim upplýsingum sem þar hefur verið að finna og miklum gögnum til viðbótar.

Okkur er öllum ljóst, hv. þingmönnum, hvaða viðfangsefni við höfum verið að fást við á sviði ríkisfjármála undanfarin ár, viðfangsefni sem eru vel þekkt í nálægum löndum. Einkum hefur það þó verið í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem menn hafa unnið úr miklum efnahagserfiðleikum sem gengu í garð á árinu 2008. Árin þar á undan höfðu einkennst af miklu ójafnvægi, ósjálfbærum og skuldadrifnum vexti og mikilli þenslu í mörgum þróuðum hagkerfum sem lauk svo með miklum látum þegar blaðran sprakk á árinu 2008. Síðan þá hefur stór hluti af baráttu stjórnvalda snúið að því að ná tökum á ríkisfjármálum sem urðu víða fyrir miklu áfalli og erfiðust hefur staðan verið í þeim ríkjum, eðli málsins samkvæmt, sem voru mjög skuldsett fyrir.

Að þessu leyti er margt líkt með stöðu Íslands og því sem glímt er við í fjölda þróaðra hagkerfa og kennt við hina alþjóðlegu fjármálakreppu en engu að síðu er Ísland jafnframt sér á báti. Það helgast af því að atburðirnir á Íslandi árið 2008 og það sem á eftir fylgdi eru nánast án fordæma í seinni áratuga hagsögu þróaðra ríkja. Hér hrundi stærstur hluti fjármálakerfisins á einni viku. Gengi gjaldmiðilsins féll á skömmum tíma um nálægt 40% og tæplega 11% samdráttur í landsframleiðslu fylgdi í kjölfarið á árunum 2009 og 2010. Atvinnuleysi fór úr því að vera hverfandi lítið, um 1%, í rúmlega 9% á fáeinum mánuðum. Verðbólga var 18% og vextir himinháir.

Hrunið birtist ekki síst í mjög harkalegum viðsnúningi í ríkisfjármálunum. Á árunum fyrir 2008 var ríkissjóður rekinn með nokkrum, en þó að mínu mati allt of litlum, afgangi og vaxtagjöld ríkissjóðs voru ekki teljandi. Heildarjöfnuður var jákvæður um um það bil 5–7% af vergri landsframleiðslu árin 2005–2007, en árið 2008 snerist afkoman algjörlega við og var útkoman neikvæð upp á 14,6% af vergri landsframleiðslu og síðan aftur 9% árið 2009. Það skýrist af gríðarlegu tapi sem ríkið varð að taka á sig með tilheyrandi skuldaaukningu en einnig og ekki síður hinu að tekjur féllu mjög hratt og útgjaldaaukning varð upp á tugi milljarða. Í raun var þessi sveifla upp á tugi milljarða króna á hvora hlið í minnkuðum tekjum og auknum útgjöldum. Það varð alveg ljóst að vaxtakostnaður ríkisins mundi aukast gríðarlega og það hefur hann gert, en jafnframt að hann mundi sliga ríkissjóð og gera stöðu ríkissjóðs óviðráðanlega og ósjálfbæra á skömmum tíma ef ekki yrði gripið til aðgerða.

Það dugðu því engin vettlingatök til að takast á við þær aðstæður sem blöstu við í ríkisfjármálum og efnahagsmálum landsins á fyrri hluta árs 2009. Það var öllum ljóst að ráðast þyrfti í umfangsmiklar aðgerðir ætti að takast að verja, þótt nær sé að segja að endurheimta, efnahagslegt sjálfstæði landsins. Það skipti miklu að slá því ekki á frest að takast á við þann vanda.

Ég leyfi mér að halda því fram að ákvarðanir nýrrar ríkisstjórnar um að grípa strax til aðgerða í ríkisfjármálum fyrir mitt ár 2009 hafi skilað miklu og eigi óumdeilanlega sinn þátt í því að staðan nú er betri en gert var ráð fyrir að hún yrði á þessum tímapunkti miðað við til dæmis upphaflega samstarfsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Markmið þeirrar efnahagsáætlunar sem þar var unnið eftir hafa verið einföld og skýr, fyrst og fremst voru tvö grunnviðmið sett fram hvað afkomu ríkissjóðs varðar. Annars vegar hefur verið miðað við að frumjöfnuður í rekstri ríkisins, þ.e. rekstrarafkoma án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, yrði orðinn jákvæður árið 2011 og hins vegar stefnt að heildarjöfnuði, að vaxtajöfnuði meðtöldum, á árinu 2013. Er fjárlagafrumvarp kom fram fyrir árið 2011 var það markmið uppfyllt og sömuleiðis gerir áætlun ársins í ár ráð fyrir að það náist miðað við rekstrargrunn. Það er mjög stór áfangi að jákvæður frumjöfnuður náist á rekstrargrunni því að þá er undirliggjandi grunnrekstur ríkisins kominn í jafnvægi og afgangur tekinn að myndast til að mæta fjármagnskostnaði.

Öllum er ljóst hvert umtalsverður hallarekstur ríkissjóðs leiðir og þegar hann er af þeirri stærðargráðu sem við stóðum frammi fyrir á árunum 2008 og 2009 er ljóst að slík staða leiðir mjög hratt til ósjálfbærrar stöðu. Viðvarandi hallarekstur kallar þá á auknar lántökur og auknar vaxtagreiðslur ár frá ári sem verður að mæta með enn þá harkalegri ráðstöfunum síðar. Sjálfbærni í ríkisrekstrinum og í hinum opinbera búskap er því alger lykilforsenda fyrir Ísland jafnt og önnur lönd sem vilja skipa sér á bekk með þróuðum þjóðum sem haldið geta uppi öflugu velferðarkerfi og beitt ríkisvaldinu á skynsamlegan hátt, stutt við farsæla hagstjórn og þar fram eftir götunum.

Það var með þetta að leiðarljósi og það gríðarlega mikla verkefni og þá hagsmuni sem voru í húfi sem ráðist var í aðgerðir strax frá og með miðju ári 2009 til að draga úr hallarekstri og stöðva skuldasöfnun ríkisins eins hratt og unnt væri. Unnið var í samræmi við fyrrgreind markmið í efnahags- og samstarfsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í því sambandi er rétt að fara nokkrum orðum um þá aðferðafræði sem fylgt hefur verið við að útfæra aðhaldsaðgerðir, eða aðlögunaraðgerðir ef svo má að orði komast, og aðlögun ríkisfjármálanna eða hins opinbera búskapar að breyttum efnahagslegum aðstæðum. Á útgjaldahlið hefur í öllum tilvikum verið reynt eftir fremsta megni að hlífa velferðarþjónustu, menntamálum og löggæslu en ná fram mun meiri hagræðingu, oft tvöfaldri eða rúmlega það, í almennum rekstri, stjórnsýslu og stofnkostnaði. Það er til marks og í samræmi við þau markmið stjórnvalda að verja velferðarsamfélagið eins vel og kostur er, enda er bæði félagslega og efnahagslega viðsjárvert að ganga þar of harkalega fram. Mörg önnur ríki hafa brugðist við erfiðri stöðu í efnahagslífi og reynt að ná tökum á ríkisfjármálum sínum með því með að fara í umfangsmiklar lækkanir á útgjöldum til velferðarmála. Þær ráðstafanir hafa víða verið gagnrýndar. Þær eru að sjálfsögðu umdeildar og óvinsælar í viðkomandi löndum en margir fræðimenn hafa sömuleiðis bent á að sé of hart gengið fram á því sviði geti það aukið enn á vanda ríkissjóðs og leitt til dýpkunar kreppunnar. Einnig er ljóst að mörg okkar telja félagslegar afleiðingar slíkra ráðstafana ekki forsvaranlegar.

Sú leið hefur því ekki verið farin hér, og þvert á móti. Ég hygg að ef menn bera saman aðgerðir íslenskra stjórnvalda frá og með miðju ári 2009 og til og með þessa dags og þess sem birtist í nýju fjárlagafrumvarpi sjái menn mikinn mun á því og gert hefur til dæmis verið í Eystrasaltsríkjunum, Írlandi, Portúgal, nú í Grikklandi o.s.frv.

Á tekjuhliðinni hefur markmiðið í fyrsta lagi verið að stöðva tekjufall ríkissjóðs sem leiddi af samdrætti hagkerfisins. Án umfangsmikilla aðgerða á tekjuhlið er ljóst að fjárlagagatið hefði orðið til mikilla muna stærra og kallað á enn meiri erfiðleika eða niðurskurð síðar. Sem betur fer tókst að stöðva tekjufallið frá og með miðju ári 2009, eins og glöggt kemur fram í áðurnefndri skýrslu um ríkisfjármál. Aðgerðir á tekjuhlið hafa þó ekki eingöngu þjónað þessu markmiði heldur líka því að birta pólitíska forgangsröðun og áherslur, t.d. í markmiðum um að auka jöfnuð í samfélaginu, styrkja umhverfisvernd og ábyrga auðlindanýtingu og ná fram ýmsum fleiri markmiðum með framsæknum áherslum í skattkerfinu. Sannanlega hafa þær aðgerðir meðal annars dugað til að hlífa lægstu launum við allri frekari skattlagningu þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir í tekjuöflun. Í úttekt Hagstofunnar frá því í byrjun þessa árs kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Tekjubil á Íslandi minnkaði frá árinu 2009 til ársins 2010 þegar horft er til Gini-stuðuls og fimmtungastuðuls úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Tekjubilið hafði hins vegar breikkað árin þar á undan.“

Álagningin fyrir árið 2011 sem nú má nálgast í gögnum ríkisskattstjóra og liggur fyrir sýnir og að veruleg kjarajöfnun hefur átt sér stað í gegnum þær skattkerfisbreytingar sem ráðist hefur verið í. Ef borin er saman álagning ársins 2009 vegna tekna ársins 2008 og álagningin aftur nú, 2011, vegna tekna ársins 2010 kemur mjög skýrt fram að fólk í lægri hluta tekjubilsins greiðir nú lægri skatta hlutfallslega af heildarlaunum en tveimur árum fyrr en efri hluti tekjuskalans, og sérstaklega fólk með hæstu tekjurnar, greiðir umtalsvert meira. Það er nákvæmlega sú útkoma sem að var stefnt, sú færsla skattbyrðinnar á nýjan leik af lágum og meðallaunum upp á hærri laun. Þróunin hafði verið í öfuga átt mörg ár þar á undan.

Meginniðurstaða frumvarpsins fyrir 2012 er að bati á frumjöfnuði verði um 35,9 milljarðar kr. sem er nálægt 2% af vergri landsframleiðslu, og að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður um 57,5 milljarða kr. árið 2013, um 3,1% af vergri landsframleiðslu, allt miðað við rekstrargrunn, en á greiðslugrunni yrði talan 2,4% fyrir árið 2013. Eins og áður segir er reyndar útkoman á greiðslugrunni það viðmið sem notast hefur verið við í samstarfsáætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við framlagningu síðustu langtímaáætlunar haustið 2010.

Sem fyrr segir er áætlað að á rekstrargrunni verði frumjöfnuður jákvæður um nokkra milljarða króna á árinu 2011. Fyrir árið 2012 er byggt á áformum ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að bæta afkomuna um rúmlega 29 milljarða kr. frá gildandi fjárlögum með því að auka tekjuöflun um 20,7 milljarða kr. og draga úr útgjöldum sem nemur um 8,6 milljörðum kr.

Er þá gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði lækki um meira en helming á árinu 2012 miðað við yfirstandandi ár þannig að heildarhallinn verði undir 18 milljörðum kr. 2012 á sama tíma og afgangur á frumjöfnuði vaxi í tæpa 40 milljarða kr. Líkt og áður er forgangsraðað í þágu velferðar og almannaþjónustu, þ.e. útgjaldamarkmið í velferðarmálum gera ráð fyrir minni samdrætti en á öðrum sviðum ríkisrekstrarins.

Í frumvarpinu 2012 eru sett fram almenn viðmið um samdrátt í útgjöldum, 3% í almennri stjórnsýslu og þjónustu en 1,5% í velferðarmálum, svo sem heilbrigðisþjónustu, skólamálum, löggæslu, bótakerfum og sjúkratryggingum. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 6,6 milljarða kr. vegna þessara almennu aðgerða. Því til viðbótar er miðað við að útgjöld lækki um 2 milljarða kr. vegna sértækra aðhaldsaðgerða. Er það til mikilla muna minni niðurskurður en var í fjárlögum ársins 2011 þegar aðgerðir á útgjaldahlið voru tæpir 23 milljarðar kr.

Við gerð tekjuáætlunar fyrir ríkissjóð eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi 2012 er byggt á þremur meginþáttum. Í fyrsta lagi fyrirliggjandi upplýsingum um þróun skattstofna eða breytingar á skattkerfinu miðað við stöðuna í dag, í öðru lagi þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 8. júlí sl. og í þriðja lagi áformum stjórnvalda um sértækar tekjuöflunaraðgerðir á næsta ári.

Endurskoðun á tekjuáætlun fjárlaga fyrir yfirstandandi ár myndar grundvöll fyrir áætlun ársins 2012. Þar liggur fyrir að efnahagsþróunin á árinu 2011 hefur orðið heldur jákvæðari en reiknað var með í forsendum fjárlaga sem birtist meðal annars í aukinni eftirspurn. Þá fela þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði að undanförnu í sér nokkru meiri launahækkanir á þessu ári en gert var ráð fyrir. Jafnframt er verðbólga nú talin verða 3,9% að meðaltali á árinu í stað 2,3% í forsendum fjárlaga. Það eru meginástæður þess að frumtekjur ríkissjóðs á árinu 2011 eru nú taldar verða 9 milljörðum kr. meiri að nafnvirði en í áætlun fjárlaga. Innheimta tekna á tímabilinu janúar–ágúst 2011 samanborið við sama tímabil í fyrra styður það endurmat.

Spáð er hagvexti á árinu 2012 upp á 3,1% milli ára. Þó að nýjar spár hafi komið fram sem sýna nokkuð aðra niðurstöðu, eins og spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða nú síðast haustspá Seðlabankans, er rétt að minna á að fjárlagafrumvarpið byggir á einni tiltekinni spá og öllum atriðum hennar en ekki bara sumum. Þannig verður það að vera og þannig er gert ráð fyrir að það sé gert í fjárreiðulögum, að fjárlagafrumvarpið byggi á síðustu opinberu þjóðhagsspá sem er spá Hagstofunnar frá 8. júlí sl.

Það er því misskilningur að hægt sé að standa þannig að málum að byggja á sumum þáttum þeirrar spár en öðrum ekki. Það væri hringl og vinnubrögð sem ekki eru samboðin hinu háa Alþingi. Hitt er svo jafnljóst að þegar ný spá kemur frá Hagstofunni í októberlok eða byrjun nóvember eru að sjálfsögðu allar forsendur endurreiknaðar miðað við það.

Engu að síður er hér byggt á þessu og því að innlend eftirspurn vaxi um 4% á næsta ári. Nokkur veigamikil atriði gera það að verkum að tekjur ríkissjóðs munu að óbreyttu vaxa nokkru hægar en hagkerfið í heild. Fyrst má þar nefna lækkun tryggingagjalds í samræmi við viljayfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga. Sú breyting ein og sér hefur þau áhrif ef heldur sem horfir að tekjur af þessum stofni verða 7,6 milljörðum kr. minni en ella, þ.e. sem nemur 0,4% af landsframleiðslu. Þá hefur úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt sérstökum heimildum bætt ríflega 2% við tekjuskattstofn einstaklinga að jafnaði árin 2009–2011, en á næsta ári fer að draga úr þeim áhrifum. Jafnframt mun verðtrygging persónuafsláttar sem lögfest var á ný á árinu 2011 leiða til hækkunar hans umfram launaþróun á árinu 2012 miðað við fyrirliggjandi forsendur og hefur það verulega neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga á árinu 2012. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga mundu því að óbreyttu lækka milli ára og samsvarar sú lækkun um 0,6% af landsframleiðslu. Óbeinir skattar haldast því sem næst óbreyttir sem hlutfall af landsframleiðslu á árinu 2012 eftir mikinn samdrátt undanfarin ár.

Frá hruni efnahagskerfisins haustið 2008 hefur tekjuhliðin gegnt mikilvægu hlutverki í aðlögun ríkisfjármálanna í átt að jafnvægi. Margháttaðar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu allt frá því í desember 2008 í því skyni að styrkja tekjuöflun ríkissjóðs og sporna við áhrifum samdráttar á helstu skattstofna. Ekki hefur þó verið hróflað við grundvallaruppbyggingu tekjuöflunarkerfisins sem fengið hefur góða einkunn í úttekt sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Breytingarnar sem gripið hefur verið til hafa hins vegar tekið mið af stefnu stjórnvalda í átt til meiri tekjujöfnunar og aukinnar hlutdeildar þjóðarinnar í arði af auðlindum hennar, auk þess að styðja við hagvöxt. Ný form skattlagningar, bæði á sviði umhverfisskatta og sérstakrar skattlagningar á fjármálafyrirtæki, hafa verið tekin upp í ljósi alþjóðlegrar þróunar, en þau eru í mörgum tilvikum einnig til skoðunar eða þegar komin til framkvæmda í nágrannalöndum okkar.

Ljóst er að markmiði stjórnvalda um jafnvægi í ríkisfjármálum á næstu árum verður ekki náð nema með nokkrum frekari tekjuöflunaraðgerðum á næsta ári. Í því ljósi eru þær fram settar, sérstakar tekjuöflunaraðgerðir á árinu 2012 sem skila eiga ríkissjóði 20,7 milljörðum kr. Þar af er aðeins um helmingur í formi skatttekna þar sem reiknað er með að ríkissjóður muni njóta verulegra tekna af eignum sínum, bæði með sölu þeirra og í formi arðs. Að teknu tilliti til tekjuáhrifa þessara aðgerða munu frumtekjur ríkissjóðs vaxa um 0,3 prósentustig af landsframleiðslu milli áranna 2011 og 2012, úr 28,1% í 28,4%.

Á árinu 2012 eru samkvæmt fjárlagafrumvarpinu uppi áform um eftirtaldar tekjuöflunaraðgerðir:

Dregið verður úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4% áður. Áætluð tekjuáhrif eru metin 1,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli.

Lagður verði 10,5% fjársýsluskattur á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga. Sambærilegur skattur á launastofn hefur verið lagður á þessar og fleiri atvinnugreinar sem undanþegnar eru virðisaukaskatti síðustu tvo áratugi í Danmörku. Tekjur af þessum nýja skatti eru taldar verða 4,5 milljarðar kr. á árinu 2012.

Tekið verður upp viðbótarskattþrep fyrir auðlegðarskatt, þ.e. á hreina eign yfir hærri mörkum en nú er. Endanleg útfærsla liggur ekki fyrir en miðað er við að viðbótartekjur af breytingunni verði nálægt 1,5 milljörðum kr. Því má skjóta inn að í mörgum löndum í kringum okkur er í innleiðingu skattur af svipuðum toga á efnamestu hópa samfélaganna, meira að segja í sjálfum Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Lokaskrefið verður tekið í innleiðingu kolefnisgjalds þannig að gjaldið verði miðað við fullt viðmiðunarverð á uppboðsmarkaði losunarheimilda í Evrópu í stað 75% nú.

Gert er ráð fyrir frekari hækkun veiðigjalds á fiskiveiðiheimildir eða um það bil tvöföldun þess gjalds sem lögfest var í júní 2011. Tekjuáhrif þeirrar breytingar eru áætluð 4,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli og koma heilsársáhrif ekki fram fyrr en á árinu 2013. Áhrifin á árinu 2012 eru metin á 1,5 milljarða kr.

Gangi þessi áform eftir munu framangreindar skattbreytingar skila ríkissjóði um 9,7 milljörðum kr. á næsta ári. Þá er reiknað með að framlenging heimildar til að taka út séreignarsparnað muni leiða til 2 milljarða kr. viðbótartekna af tekjuskatti. Aðrar ráðstafanir til að auka tekjur ríkissjóðs um 9 milljarða kr. verða í formi eignasölu og aukinnar kröfu til greiðslu arðs af eignum ríkissjóðs. Samtals er þessum aðgerðum því ætlað að skila ríkissjóði tæpum 21 milljarði kr. í viðbótartekjur á árinu 2012.

Þegar allt er lagt saman hljóðar tekjuáætlun ársins 2012 upp á samtals 521,5 milljarða kr. Sú niðurstaða felur í sér 8% aukningu í krónum talið milli ára en 4,2% aukningu að raunvirði. Sem hlutfall af landsframleiðslu hækka heildartekjurnar lítillega, úr 29,4% í 29,6%. Raunaukning skatttekna milli áranna 2011 og 2012 verður hins vegar talsvert minni en heildarteknanna, þ.e. 2%. Sama niðurstaða fæst á landsframleiðslumælikvarðann en skatttekjur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu munu lækka um 0,4% milli ára samkvæmt tekjuáætlun frumvarpsins, úr 26,9% í 26,5%. Sú lækkun skýrist einkum af minni tekjum af tekjuskatti einstaklinga eins og áður var minnst á. Það eru því fyrst og fremst áform um auknar tekjur af arðgreiðslum frá ríkisfyrirtækjum og eignasala sem gera það verkum að heildartekjur ríkissjóðs halda í við vöxt landsframleiðslunnar frá þessu ári yfir á næsta ár en ekki skatttekjurnar.

Helstu breytingar á útgjaldahlið frá fjárlögum þessa árs koma til vegna kjarasamninga sem gerðir hafa verið á árinu, svo og vegna verðlags- og gengishækkana. Hér er um verulegar hækkanir að ræða og eru fjárveitingar vegna þessara liða samtals auknar um tæpa 27 milljarða kr. Bætur almanna- og atvinnuleysistrygginga hafa hækkað að jafnaði um 8,1% og laun opinberra starfsmanna um 5%. Vegna kjarasamninga hækkar grunnur almannatrygginga og atvinnuleysisbóta um tæpa 10 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs og laun opinberra starfsmanna um 11,4 milljarða kr. Í fjárlögum þessa árs var hækkun á almennu verðlagi einnig vanmetin og er gert ráð fyrir að það vanmat verði bætt í fjárlögum næsta árs. Annars vegar er um að ræða útgjöld vegna endurskoðunar á verðbólguþróun ársins 2011 um 1,6% og hins vegar spá um 3,7% hækkun á verðlagi á árinu 2012. Almennar verðhækkanir sem taka mið af þróun verðbólgu nema um 4,3 milljörðum kr. Þá eru áhrif af veikingu á gengi íslensku krónunnar miðað við septembergengi ársins í ár og nóvembergengi ársins í fyrra metin á um 1,3 milljarða kr. til hækkunar, og vaxtagjöld eru auk þess hækkuð um 4,7 milljarða kr.

Þó nokkrar breytingar verða á útgjöldum til hækkunar og lækkunar í frumvarpinu fyrir utan launa- og verðlagshækkanir. Þar er helst að nefna að endurmetin er fjárþörf elli- og örorkulífeyris og hækka útgjöld vegna þessa samtals um 3,2 milljarða kr. Skýrist það fyrst og fremst af vanmati á tekjutryggingu öryrkja í fjárlögum 2011. Útgjöld til sjúkratrygginga hækka um 2,7 milljarða kr., aðallega vegna þess að aðhaldsmarkmiðum í sérfræðilækniskostnaði hefur ekki verið náð. Auk þess er þó nokkur magnvöxtur bæði í lyfjakostnaði og brýnni læknismeðferð erlendis. Til að mæta erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði eru útgjöld hækkuð annars vegar um 800 millj. kr. til að skapa námstækifæri fyrir allt að 1 þús. atvinnuleitendur og um 440 millj. kr. til að tryggja námspláss í framhaldsskólum fyrir alla umsækjendur undir 25 ára aldri sem uppfylla skilyrði fyrir inngöngu. Frumvarpið ber því með sér fullar efndir á því metnaðarfulla átaki á sviði menntunarmála sem var til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninga á síðasta vori.

Þá er tekjutrygging örorku- og ellilífeyrisþega hækkuð um 800 millj. kr. vegna fjölgunar bótaþega og samkomulags ríkisstjórnar og lífeyrissjóða um að koma í veg fyrir víxlverkun milli bóta almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum. Hækkun á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nemur um 1,2 milljörðum kr., en þar af hækka lögbundin framlög um tæpar 600 millj. kr. og sérstakt tímabundið framlag vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um tæpar 700 millj. kr. Að lokum má nefna að framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er hækkað um rúmar 500 millj. kr. vegna 10% hækkunar framfærslugrunns námslána.

Á móti eru útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækkuð um 3,5 milljarða kr., aðallega vegna minna atvinnuleysis. Þá er fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs lækkuð um 1,1 milljarð kr., en hún var ofmetin í fjárlögum ársins og það sama á við um framlög til Þróunarsjóðs EFTA og eru framlögin lækkuð um 900 millj. kr. Útgjöld vegna barnabóta voru sömuleiðis ofmetin um 800 millj. kr. í fjárlögum 2011 og lækka því útgjöld þeirra vegna sem því nemur.

Ein veigamesta breytingin á útfærslum útgjaldahliðar fjárlagafrumvarpsins samanborið við fjárlög ársins 2011 er að dregið er umtalsvert úr aðhaldsráðstöfunum. Í fjárlögum 2011 námu beinar aðhaldsráðstafanir 28 milljörðum kr. en í þessu fjárlagafrumvarpi nema þær 8,6 milljörðum kr. og ég fór yfir aðferðafræðina í því sambandi fyrr í ræðu minni.

Þá má loks nefna að nokkur ný framfaramál fá nú brautargengi í fjárlagafrumvarpinu og er það í raun í fyrsta skipti í þrjú ár sem um slíkt er að ræða. Ég hef þegar nefnt metnaðarfullt átak á sviði menntunarmála í þágu ungs fólks og atvinnuleitenda upp á 1,2 milljarða kr. Þá verður lagt fé til að hefja aðgerðir á grundvelli fyrirhugaðs samkomulags um að efla almenningssamgöngur um 200 millj. kr. Lagðar verða 200 millj. kr. í að hefja aðgerðir til að jafna flutningskostnað á grundvelli tillagna sem í mótun eru hjá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Lagðar verða 300 millj. kr. af hálfu ríkisins í átak til að efla vetrarferðamennsku og staðið verður að fullu við þingsályktunartillögu um að auka framlög til þróunaraðstoðar. Raunaukning á þeim fjárveitingum verður um 300 millj. kr. en utanríkisráðuneytið leggur nokkuð af mörkum með því að taka á sig viðbótaraðhaldskröfu í rekstri sínum þannig að unnt sé að gera þá aukningu að veruleika.

Þá má loks nefna að bæði utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti fá nokkuð auknar fjárveitingar til að standa straum af stefnumótun og stefnu Íslands á sviði norðurslóðamála og í því birtist áhersla á þann málaflokk eins og mótað hefur verið af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis.

Með samþykkt þessa frumvarpsins mun rekstur íslenska ríkisins, gangi það eftir, vera kominn langleiðina á sjálfbæran grunn. Það er gríðarlegur árangur, hvað sem annað snertir, miðað við hvernig staðan var hér og útkoman varð á árinu 2008 og ekki síður í ljósi þess að árin 2009 og 2010 voru erfið samdráttarár í efnahagslífinu. Slík aðlögun er að sjálfsögðu til muna erfiðari á tímum þegar sjálft hagkerfið er í lægð.

Engu að síður er nauðsynlegt í ljósi núverandi stöðu að setja fram ný og metnaðarfull markmið í ríkisfjármálum til að gera stöðu ríkissjóðs enn betri til framtíðar litið. Ekki kemur til greina að nú þegar vöxtur er tekinn við í hagkerfinu sé rétt að sýna einhver lausatök við rekstur ríkissjóðs og þá sérstaklega hvernig menn ætla að mæta þeim stórauknu skuldum sem ríkið hefur orðið að taka á sig vegna efnahagsáfallanna.

Talsverð umræða er og hefur verið meðal fræðimanna hér á landi og ekki síður erlendis um þau viðmið sem eðlilegt sé að ríkisstjórnir setji sér í skuldamálum eða hið opinbera í heild sinni ef út í það er farið. Rækilega er farið yfir það í sérstakri umfjöllun í ríkisfjármálaáætluninni. Eins og þar kemur fram, og er svo sem vel þekkt, er almennt ekki talið heppilegt eða skynsamlegt að skuldir hins opinbera fari mikið yfir 60% af vergri landsframleiðslu. Heildarskuldir hins opinbera á Íslandi eru ríflega 100% af vergri landsframleiðslu og því er talsvert í land að ná fyrrgreindum markmiðum. Samanborið við önnur lönd jukust skuldir hins opinbera einna mest á Íslandi af öllum löndum eftir hrun en síðan þá hefur þróunin hins vegar verið nokkuð önnur hér en í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Skuldir hins opinbera eru enn að aukast umtalsvert og munu jafnvel aukast á næstu árum í nokkrum þeim löndum sem orðið hafa fyrir að einhverju leyti sambærilegum efnahagshremmingum og við, á sama tíma hins vegar og við sjáum að skuldir hins opinbera á Íslandi hafa náð hámarki og munu fara lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á komandi árum með vaxandi landsframleiðslu og hagvexti.

60% viðmiðið fyrir hið opinbera í heild, þ.e. bæði ríki og sveitarfélög, þýðir auðvitað að báðir aðilar þurfa að sameinast um markmið til að ná fram viðunandi skuldastöðu á næstu árum. Í dag skuldar ríkið rúmlega 80% af vergri landsframleiðslu og sveitarfélögin í heild um 20%. Hvað ríkið varðar sýnir ríkisfjármálaáætlunin að með raunhæfri og aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu samhliða auknum hagvexti er fullkomlega raunhæft að ríkissjóður geti minnkað skuldir sínar á næstu árum og að á árabilinu 2016–2019 verði skuldir ríkissjóðs komnar niður í um 45–50% af vergri landsframleiðslu. Á sama tíma er ekki óeðlilegt að gera þá kröfu að skuldastaða sveitarfélaganna fari jafnframt jafnt og þétt batnandi og verði ekki hærri en 12–15% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili.

Gangi þetta eftir hjá báðum aðilum mundi hið opinbera í heild vera komið í viðunandi skuldastöðu um eða upp úr miðjum þessum áratug. Að sjálfsögðu þarf þó að setja þann fyrirvara á að nauðsynlegt er að fara í nánari greiningarvinnu og verður það gert, m.a. á grundvelli þess samstarfs sem ríki og sveitarfélög byggja nú upp sín í millum um samræmda og heildstæða hagstjórn fyrir hið opinbera á Íslandi. Í þeim efnum fagna ég sérstaklega nýjum sveitarstjórnarlögum og þeim fjármálareglum sem þar voru settar sem og þeim hagstjórnarsamningi milli ríkis og sveitarfélaga sem ætlunin er að byggja á þeim grunni meðal annars.

Með vaxandi flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga vex vægi sveitarfélaganna í hinum opinbera rekstri og mikilvægi fjármála þeirra verður meira í hagstjórnarlegu tilliti. Sveitarfélögin fara með um það bil þriðjung af hinni opinberu veltu í dag en það gæti á næstu árum vaxið í um 40%, t.d. með flutningi málefna aldraðra, sem vonandi verður að veruleika innan skamms, svo ekki sé talað um ef við bættust þættir eins og heilsugæsla og jafnvel framhaldsskólar.

Ég hef áður sett það fram sem markmið af minni hálfu að æskilegt væri að innan ekki mjög langs tíma hefðu verk skipast þannig að sveitarfélögin færu með um helming hinnar opinberu þjónustu þannig að um væri að ræða um það bil jafngild stjórnsýslustig ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir. Verði þróunin í þá átt eykst að sjálfsögðu mikilvægi þess að fjármál sveitarfélaganna séu traust og sjálfbær. Ríkið mun þá minna geta beitt stjórntækjum sínum einhliða eftir því sem hlutfall annarra af hinum opinbera rekstri vex. Aðgerðir ríkisins verða þá bitminni, ef svo má að orði komast, eftir því sem hlutfall ríkisútgjaldanna er lægra af opinberum heildarútgjöldum.

Það er mikilvægt að umræða fari fram um þessi mál, ekki síður en það sem við erum með í höndunum í dag og varðandi fjárlagafrumvarp næsta árs. Geri ég þó að sjálfsögðu ekki lítið úr mikilvægi þess.

Ég hlýt að vænta þess að þingheimur fagni því að við höfum þó náð þeim umtalsverða árangri sem raun ber vitni og getum byggt á honum í framhaldinu til að styrkja enn stöðuna í þessum efnum. Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar og vænti góðs samstarfs við nefndina um vinnu við frumvarpið.