140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt að halda því fram að hinum tekjulægstu hafi verið hlíft. Álögur á þann tekjuhóp hafa víst verið hækkaðar jafnvel þó að þær hafi ekki verið hækkaðar til jafns við það sem þær voru hækkaðar hjá þeim tekjuhærri í samfélaginu.

Ég gagnrýni það líka harðlega sem komið hefur fram að fjárframlög til velferðarmála hafi hækkað. Jú, það má kannski segja það ef tekið er tillit til þeirrar aukningar sem fara þarf í varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð. Við höfum borgað 80 milljarða í atvinnuleysisbætur á síðustu þremur árum.

Þar komum við að seinni spurningu minni sem hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki: Hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að örva hagvöxt til að koma í veg fyrir atvinnuleysi svo við þurfum ekki að eyða milljörðum á milljarða ofan í Atvinnuleysistryggingasjóð? Við því verðum við að fá skýr svör.