140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:24]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í grunninn ósammála þeirri aðferðafræði sem beitt er við fjárlagagerðina, þ.e. að yfir 74 milljarða kr. fari eingöngu í vexti á skuldum ríkissjóðs á sama tíma og verið er að skera heilbrigðiskerfið inn að beini og meira en það. Það á að nýta fjármunina með öðrum hætti og leita samninga við skuldunauta ríkissjóðs þegar ástandið er svona.

Það hefur skýrt komið fram hjá forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss allt síðastliðið ár að meiri niðurskurður muni leiða til lokunar deilda. Þess vegna spyr ég og endurtek spurningu mína: Hefur fjármálaráðuneytið látið gera úttekt á því hvað það kostar að senda sjúklinga til lækninga erlendis þegar deildum á Landspítalanum verður lokað og hvað það kostar ríkissjóð í auknum atvinnuleysisbótum þegar starfsfólki á heilbrigðisstofnunum verður sagt upp?