140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um að til standi að loka neinni þeirri starfsemi í heilbrigðiskerfinu á Íslandi sem þýði sjálfkrafa að sjúklingar verði að flytjast til útlanda. En auðvitað hefur velferðarráðuneytið fyllt inn í þann ramma sem það fær í þessum fjárlögum og hæstv. velferðarráðherra er mjög líklegur til að vera viðstaddur umræðuna og vera tilbúinn til að svara þá nánar faglegum spurningum um það. Þó að ég taki ýmislegt að mér er ég ekki enn þá orðinn faglegur velferðarráðherra.

Við hv. þingmaður, ég og Þór Saari, erum greinilega algjörlega ósammála um eitt og það er hvort íslenska ríkið eigi að fara í nauðasamninga eða greiðsluþrot. Ég tel að barátta mín undanfarin tæp þrjú ár hafi fyrst og fremst snúist um að koma í veg fyrir að íslenska ríkið þyrfti að fara á hnén. Hv. þingmaður segir að það sé óþolandi að borga 74 milljarða í vexti. Hvað vill hv. þingmaður gera? Hætta að borga af lánunum? Er það það sem verið er að segja í þingsal? (ÞSa: Endursemja.) Endursemja, já? Hvað þýðir það? Hvað þýðir það fyrir ríki sem verður að játa sig sigrað og gefa upp slíka stöðu?

Það skal ekki verða, hv. þingmaður. Það er einhver ömurlegasta tillaga sem ég heyri flutta fram (Forseti hringir.) í þingsal að íslenska ríkið, sem alltaf hefur staðið í skilum alla sína sögu með öll sín lán, geri slíkt, og það stendur (Forseti hringir.) ekki til annað en að það (Forseti hringir.) geri það hér eftir sem hingað til.