140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á ekki von á öðru en að sú hv. fjárlaganefnd sem starfar núna muni fylgja eftir því plaggi sem við skiluðum í hinni fjárlaganefndinni til þingsins, og er það í fyrsta sinn sem það er gert, einmitt til að bæta vinnubrögðin og hafa meiri aga í ríkisfjármálum. Það er mjög mikilvægt að gera það og um það er enginn ágreiningur. Ég hlakka til að hitta Nökkva á fyrsta fundi með hv. fjárlaganefnd til að fara yfir þetta, ef hann mun ekki geta leynt gleði sinni yfir því.

Það er svo mikið sanngirnismál að mínu mati að gera þetta svona. Og af því að ég var að nefna hvernig niðurskurðurinn virkar oft, þá þurfum við líka að átta okkur á því, þegar lagt er af stað í ákveðna vegferð, hvort rétt hafi verið gefið í upphafi. Nú erum við búin að vera í niðurskurði í þessi ár — sumar stofnanir voru með mikinn uppsafnaðan halla og gátu mætt niðurskurðinum þannig á meðan aðrar voru það ekki. Kannski er skýringin sú að sumar stofnanir hafi bara verið reknar vel og aðrar illa, ég þekki það ekki. Var rétt gefið í upphafi? Það er dálítið mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega.

Eitt sem hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar hefur vakið undrun mína. Þegar gerðar eru hagræðingarkröfur hafa sumar litlar stofnanir oft og tíðum fært fjármálastjórnina og bókunina á viðkomandi rekstri til Fjársýslu ríkisins, þ.e. bókhaldsvinnan er færð þangað, en þær greiða ekkert fyrir hana. Þá er í raun og veru verið að setja meiri peninga til Fjársýslunnar og ekki bara það. Ef viðkomandi stofnun er kannski í mínus, þarf hún ekki að borga dráttarvexti því Fjársýslan tekur það bara yfir. Þá erum við í raun og veru að færa úr einum vasa í annan, en viðkomandi stofnun sem gerir þetta sætir ekki sama niðurskurði og önnur sem sker niður á öðrum stöðum og segir upp einhverjum öðrum starfsmanni í staðinn fyrir að segja kannski upp bókaranum. Þegar á heildina er litið er þetta einn og sami ríkiskassinn og þess vegna verður auðvitað að vanda vinnubrögðin miklu betur en gert hefur verið undanfarna áratugi.