140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðu hans og yfirferð yfir frumvarpið. Ég vil byrja á því að segja að það er vitanlega svolítið sérstakt að ræða frumvarpið við 1. umr. því að við vitum að það eru fáar vikur í að það kunni að breytast töluvert, forsendur frumvarpsins jafnvel. Þær forsendur sem hér er byggt á t.d. varðandi hagvöxt byggja á spá Hagstofunnar frá því í sumar og síðan er reiknað með að frumvarpið verði endurskoðað miðað við nýja spá sem kemur væntanlega í október eða nóvember.

Seðlabankinn er með annars konar hagvaxtarspá í sinni spá frá því í ágúst og það munar töluvert miklu á þessum spám. Mismunurinn getur numið líklega allt að 30 milljörðum ef þær upplýsingar eru réttar sem maður hefur og útreikningar. Frumvarpið byggir á þessu og því er eðlilegt að við setjum spurningarmerki við hversu djúpa umræðu hægt er að taka við 1. umr. þegar við vitum að forsendurnar kunna að breytast innan skamms tíma. Hins vegar getum við auðvitað fjallað um þá pólitísku stefnumörkun sem er sett fram í frumvarpinu sem varla mun taka breytingum þó svo að forsendurnar breytist að einhverju leyti.

Það má spyrja sig um þá áætlun sem er fyrir árið 2011 samkvæmt þjóðhagsspá, t.d. varðandi kaupmátt, hvort ekki sé rétt að vera með mikinn fyrirvara á þeim tölum sem settar eru fram í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Komið hefur fram að margir óvissuþættir eru í þeim forsendum eða spá Hagstofunnar sem hér er vitnað til. Það eru óvissuþættir sem lúta að t.d. stóriðjuframkvæmdum, óvissuþættir sem lúta að því hvort skuldavandi heimilanna sé vanmetinn, hvort efnahagsbatinn í viðskiptalöndunum dragist á langinn, sem mun að sjálfsögðu hafa áhrif hér og er vitanlega mjög slæmt ef svo fer, og hvort hagvöxtur verði minni. Allt eru þetta stór og mikilvæg atriði sem geta haft áhrif.

Að sjálfsögðu er það ekkert nýtt að það sé einhver óvissa þegar verið er að gera spár sem þessar en ég held því miður, frú forseti, að þessir óvissuþættir eigi eftir að koma fram, þ.e. þeir gætu átt eftir að rætast. Þar á ég við mat á skuldavanda heimilanna sérstaklega. Það er lítið að sjá varðandi stóriðjuframkvæmdirnar um að þær gangi eftir. Efnahagsbatinn virðist vera að dragast á langinn í viðskiptalöndum okkar og svo er það spurning um hagvöxtinn en að því munum við væntanlega ekki komast alveg strax. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að áætlanir séu raunhæfar og ég ætla engum það að setja fram blekkingar eða slíkt heldur byggir þetta vitanlega allt á heimavinnunni og þessum spám.

Það sem mér finnst vanta í umræðuna og mér finnst ekki koma nógu skýrt fram í því sem ég hef þegar lesið í frumvarpinu — ég vil taka það fram, forseti, að það eru örugglega fleiri jákvæðir punktar í þessu frumvarpi en ég mun telja upp á eftir og einnig fleiri neikvæðir en ég mun telja upp en það er hins vegar svo að auðvitað rekum við augum í einhverja hluti þegar við förum yfir þetta — mér finnst vanta að við höfum framtíðarsýn á tekjuöflunina. Gert er ráð fyrir að tekjur séu auknar með hækkunum á sköttum, m.a. launaskatti á fjármálafyrirtæki, og síðan hefur verið skorið niður í heilbrigðisstofnunum og öðru slíku. Ég held að við þurfum að vera með skýrari sýn á það hvernig við ætlum að afla tekna til framtíðar og þar finnst mér vanta atvinnustefnuna inn í umræðuna.

Við höfum lagt fram þrjár tillögur, þingmenn Framsóknarflokksins, búið er að dreifa einni og hinum verður dreift hér fljótlega. Þær varða efnahagsmál, atvinnuuppbyggingu og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Þetta eru svona þau forgangsmál sem við verðum með.

Það er mjög mikilvægt að skoða hvaða áhrif breytingar á skattareglum og skattumhverfi getur haft. Hættan er sú að verði þessi launaskattur lagður á fjármálafyrirtæki, sem ég ætla að svo komnu máli ekkert að segja af eða á með, getur það vitanlega leitt til þess að þjónustugjöld eða iðgjöld trygginga hækki sem verður svo velt yfir á viðskiptavinina. Þá er spurning hver sé í raun að borga. Það má velta því fyrir sér hvort skynsamlegra sé að reyna að ná í þann hagnað sem er af bönkunum með einhverjum hætti og kannski nýta hann í almenna leiðréttingu á lánum heimila sem ég held að muni skila miklu þegar upp verður staðið.

Hér hefur verið rætt um séreignarsparnaðinn og ég ætla ekki að fara neitt djúpt í það. Það mun væntanlega leiða til minni sparnaðar ef þetta gengur eftir. Síðan er bensíngjaldið, ég lít á það sem mikinn landsbyggðarskatt, gangi það eftir, þó að vitanlega komi það við alla því að það er gjarnan meiri þörf fyrir bíla á landsbyggðinni þar sem sækja þarf þjónustu og annað um langan veg. Síðan held ég að reynslan sýni að hækkanir á bensíni, hvort sem þær er á vegum ríkisins eða olíufélaganna, leiði til minni aksturs og þar af leiðandi minni tekna.

Ég ætla aðeins að fara út í það sem kemur fram í frumvarpinu um niðurskurð til heilbrigðisstofnana. Ég verð að segja að það veldur miklum vonbrigðum að áfram skuli haldið í þá átt að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum. Gangi sá niðurskurður eftir sem hér er boðaður á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki svo dæmi séu tekin, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og fleiri stöðum, þá þarf einfaldlega að velta þeim spurningum upp og það er einmitt það sem ég meina þegar ég tala um pólitíska stefnumörkun í frumvarpinu, hvort það sé í raun verið að leggja til nýtt heilbrigðiskerfi á þessum stöðum. Það hefur komið fram að þessi sjúkrahús og þessar stofnanir verða ekki reknar með því þjónustustigi sem þær hafa í dag gangi þetta eftir. Það hefur komið fram að sjúkrahúsþjónusta mun t.d. leggjast af á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki gangi þetta eftir. Það er mjög bagalegt ef stefnumörkun ríkisstjórnarinnar kemur fram í gegnum fjárlagafrumvarpið með þessum hætti. Það mun þýða 12–13 glötuð störf í því litla samfélagi sem ég nefndi áðan gangi þetta eftir. Við vitum að með hverjum einstaklingi sem missir starf er fjölskylda, maki sem hugsanlega þarf að breyta um vinnu líka o.s.frv. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál. Þetta er fyrst og fremst stefnumörkun, vil ég meina, sem kemur í gegnum frumvarpið sem er ekki gott. Það þarf að vinna þessa hluti öðruvísi að mínu viti.

Ég nefndi aðeins áðan málefni lögreglunnar og ætla að gera það aftur. Það er vitanlega sérstakt að málefni lögreglunnar skuli vera í einhverjum hnút þegar kemur að launaumræðunni og spurning hvort eigi að taka þá umræðu hér. Það er hins vegar mikilvægt að við setjum okkur markmið og skilgreinum bæði verkefni, mannaflaþörf og hvaða öryggisstig við verðum að hafa í landinu og þess vegna munum við leggja áherslu á að þingið afgreiði þá löggæsluáætlun sem við höfum lagt fram í þinginu.

Ég nefni þetta hér því að ég sé að í fjárlagafrumvarpinu eru 200 millj. kr. áætlaðar til reksturs almannasamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það sé mikilvægt að hafa góðar almannasamgöngur hér en ef maður setur þetta í það samhengi sem ég talaði um varðandi lögregluna þá veltir maður fyrir sér hvort þetta sé sú forgangsröðun sem þarf að vera. Einnig vil ég nefna að styrkir til alls innanlandsflugs eru í frumvarpinu 184 millj. kr. á meðan styrkja á um 200 millj. kr. tilraunaverkefni í almennum samgöngum.

Það er hægt að nefna ýmislegt í þessu frumvarpi sem ég á eftir að gera og get greinilega ekki gert á þeim 10 mínútum sem ég hef. Ég vil þó telja upp jákvæða þætti. Það er mjög jákvætt að settir eru fjármunir í markaðssókn í ferðamálum og vil ég hrósa ríkisstjórninni fyrir að gera það. Við eigum að láta kné fylgja kviði í því. Ég vil líka hrósa henni fyrir það að mæta á hækkandi olíuverði núna hjá þeim sem þurfa að kynda með olíu. Mjög mikilvægt er að því sé mætt þannig að við séum að jafna að einhverju leyti búsetuskilyrðin. (Forseti hringir.) Svo fagna ég því líka að mér sýnist að það eigi að fara í alvöruvinnu varðandi flutningsjöfnuð hjá framleiðslufyrirtækjum og öðrum úti á landi. Þessu er sjálfsagt að fagna því að þarna er verið að gera vel þó að ég sjái þess ekki alls staðar stað í þessu frumvarpi.