140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins segja í sambandi við forsendur að þetta er svo sem umræða sem við tökum á hverju ári. Ég hef áður útskýrt að þetta er einfaldlega þannig að við erum bundin af því að taka útgangspunkt í einni tiltekinni þjóðhagsspá og það er sú nýjasta, stóra opinbera, sem fyrir liggur þegar fjárlagafrumvarpið er á lokastigi í vinnslu yfir sumarmánuði og það er þá júlíspá Hagstofunnar núna sem við notum. Annaðhvort tökum við slíka spá alla eða ekki, menn tína ekki út úr henni sumt og breyta hinu.

Í raun má segja að það eina sem fjármálaráðuneytið sjálft að nokkru leyti metur er tekjuhliðin, bæði varðandi horfur fyrir næsta ár en þó kannski sérstaklega áætlaða útkomu þessa árs og þá er einfaldlega byggt fyrst og fremst á upplýsingum úr ríkisbókhaldinu sjálfu, þ.e. þeirri þróun sem við sjáum í tekjustreyminu til ríkisins innan ársins sem við vöktum mánuð frá mánuði og nú liggja fyrstu átta og bráðum fyrstu níu mánuðirnir fyrir þannig að það er að komast tiltölulega skýr mynd á það í hvað stefnir varðandi útkomuna á tekjuhlið og svo sem gjaldahlið líka.

Það þarf aðeins að hafa í huga þegar skoðuð er útkoma einstakra ráðuneyta eftir fyrstu sex eða fyrstu átta mánuði að jafnvel þó að gerð sé ákveðin tekju- og útgjaldadreifingarspá eru alltaf talsverð frávik í því innan ársins innan ráðuneyta hvernig það fellur til, t.d. hjá fjármálaráðuneytinu.

Varðandi fjársýsluskattinn þá er hann af fyrirmynd, sem við sjáum að er þekkt í öðrum löndum, á fjármálaþjónustu og jafnvel fleiri greinar sem ekki bera virðisaukaskatt auk þess sem það er þannig að nánast hvar sem er á byggðu bóli eru menn núna að leita leiða til að láta fjármálakerfið, fjármálastofnanir, leggja af mörkum (Forseti hringir.) að einhverju leyti upp í þann mikla kostnað sem það hefur sjálft valdið samfélögunum og ekki vantar að afkoman a.m.k. hjá stóru bönkunum hér er ágæt og býður upp á það.