140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þingmanni og ég er að mörgu leyti sammála greiningu hans, þó að það sé út af fyrir sig ekki umdeilt að við þurfum að sjálfsögðu trausta verðmætasköpun til að standa undir bættum lífskjörum, hvort sem því er svo útdeilt í gegnum kjarasamninga eða ríkissjóð o.s.frv. En það er einfaldlega þannig að það eru engin einföld töfrabrögð til sem tryggja sjálfkrafa hagvöxt og atvinnusköpun. Og sú umræða sem gengur út á að það sé bara vegna aumingjaskapar og linku í ríkisstjórn Íslands að hér sé ekki allt á blússandi ferð í 4–5% hagvexti, er auðvitað alveg ótrúleg. Lítum í kringum okkur og veltum því fyrir okkur hvað ríkisstjórnir út um allt eru að reyna að gera. Auðvitað þetta sama, að reyna að ná hagkerfunum í gang og skapa störf og hagvöxt. En það er hægara sagt en gert. Nú hefur það því miður verið að gerast á undanförnum mánuðum að hagvaxtarspár hafa yfirleitt verið lækkaðar mjög víða í löndunum í kringum okkur, nema helst á Íslandi. Hér er þó enn spáð 2,5–3% hagvexti í öllum nýjustu hagspám.

Ég tel að það séu góðar forsendur til þess að sú aukning atvinnuvegafjárfestinga sem þó er farin af stað haldi áfram og við eigum mikil tækifæri í þeim efnum. Við sjáum líka til viðbótar vísbendingum eins og þeim að nú er spáð 15–18% aukningu atvinnuvegafjárfestingar, að innflutningur á hráefnum, rekstrarvörum og framleiðslutækjum fer jafnt og þétt vaxandi. Það er auðvitað góð vísbending um að atvinnulífið sé þrátt fyrir allt að gíra sig inn í aukin umsvif og aukna framleiðslu. Við sjáum mikla fjárfestingu í ferðaþjónustu og aukningu þar, og að sjálfsögðu í orkuiðnaðinum enda lítur ágætlega út með þó nokkur verkefni sem eru í samningaviðræðuferli nákvæmlega núna, og að sjálfsögðu sjávarútvegurinn sem býr við gríðarlega gott tekjustreymi, mörg stærri fyrirtækin hafa verið að (Forseti hringir.) greiða niður skuldir og munu nú fjárfesta þrátt fyrir það að þar séu ekki allir hrifnir af ríkisstjórninni. Ætli það verði ekki pyngjan hjá þeim sjálfum og rekstur og arðsemi fyrirtækjanna sem ráði að lokum (Forseti hringir.) en ekki ímyndaður ótti við stjórnvöld.