140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum hlý orð í minn garð. Eiginlega verður maður hálforðlaus og veit ekki hvernig maður á að svara svona almennilegheitum.

En hvað varðar spurninguna sem beint var til mín sérstaklega, um hvaða leiðir ég hefði talið heppilegar árið 2009. Eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson benti á var um mjög stóran vanda að ræða. Það var einmitt þess vegna sem við sjálfstæðismenn lögðum til þá leið að nota þá peninga sem ríkissjóður sannarlega á í lífeyrissjóðskerfinu, skatttekjur sem ríkið á og hefur ákveðið að geyma til síðari tíma. Það var mitt mat og margra annarra þingmanna að skynsamlegt væri, í ljósi þeirra skelfilegu aðstæðna sem upp voru komnar, að taka í það minnsta hluta af þeim peningum, ekki alla, það var langt í frá verið að tala um alla þá peninga sem ríkið átti inni hjá lífeyrissjóðunum, en hluta af þeim og nota þá til að stoppa upp í þetta mikla gat þannig að ekki þyrfti að koma til skattahækkana. Það skiptir svo miklu máli að fara ekki þá leið vegna þess að síðan höfum við séð að hægar hefur gengið fyrir vikið að koma hagvextinum af stað. Spá um 1,6% hagvöxt á árinu 2012 er stóralvarlegt mál, frú forseti. Það er stóralvarlegt að mat Seðlabankans skuli vera að hagvöxturinn verði ekki meiri en 1,6%. Það setur þessi fjárlög sem við erum að ræða algerlega upp í loft og það eru auðvitað hörmulegar fréttir fyrir þær þúsundir Íslendinga sem eru atvinnulausar.

Þess vegna held ég að stjórnarstefnan hafi verið röng og það sem meira er, það hafi verið valmöguleikar á borðinu sem hægt var að nýta sér, það voru aðrar leiðir mögulegar sem hefðu betur verið farnar. En þetta er allt liðin tíð. Fram undan eru aftur á móti ákvarðanir um hvað skal gera næst og ég tel enn og aftur að með því að breyta stjórnarstefnunni, með því að koma meiri festu á í atvinnumálunum, með því að hætta hringlanda t.d. í (Forseti hringir.) sjávarútvegsmálunum, munum við ná árangri og miklu hraðar en gert er ráð fyrir.