140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að mikilvægt er að grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, búi við trausta umgjörð. Við erum líka sammála um að það er mikilvægt að sú umgjörð sé hönnuð þannig að greinin skili sem mestum arði fyrir þjóðarbúið.

Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að deilurnar sem um kerfið standa, og sá ótrausti grunnur sem undir því er, sé fyrst og fremst vegna þess að við núverandi skipan skilar atvinnugreinin ekki eðlilegum hlut af auðlindarentunni í sameiginlega sjóði sem verður æ sárgrætilegra á þeim erfiðu tímum sem við lifum þegar allur almenningur og öll venjuleg fyrirtæki í landinu þurfa sannarlega á því að halda að sjávarútvegurinn sé undir árum með okkur. Ég held að þetta sé nú eitt af stærstu verkefnunum sem bíða okkar í vetur og sé kannski eina stóra verkefnið sem eftir er á tekjulið fjárlaganna.

Ég vildi síðan inna hv. þingmann eftir því hvort hann sæi einhverjar leiðir til að vinna með þær horfur í skuldastöðu ríkissjóðs sem hann hér nefndi, einkum með hreinu skuldastöðuna, því að við erum sammála um að hún er óviðunandi of lengi samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Ég vildi því inna hv. þingmann eftir því hvort hann hefði tillögur í því efni sem gætu orðið til að gera einhverjar breytingar sem máli skipta á þeim stærðum.