140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

innlánstryggingakerfi.

[15:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil ræða við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Pál Árnason, um heimilin og fjárhagslega stöðu þeirra, þ.e. þau heimili sem eru með innlán, sem er óvenjulegt.

Innlán eru, sem kunnugt er, ekki með ríkisábyrgð á Íslandi — ég endurtek: Þau eru ekki með ríkisábyrgð, og til að tryggja og róa sparifjáreigendur hafa menn sett upp innlánstryggingakerfi um allt Evrópska efnahagssvæðið.

Við fréttum af því í gær og í morgun að stærsti banki Belgíu, sem er með eignir upp á 200% af landsframleiðslu Belgíu, væri í miklum vandræðum. Maður vonar að sjálfsögðu að það gerist ekki. En telur hæstv. ráðherra að innlánstryggingakerfi í Belgíu muni ráða við það ef sá banki lendir í vandræðum?

Ég vil líka spyrja hann út af reynslu okkar á Icesave, við höfum mjög mikla reynslu af innlánstryggingakerfum: Hefur hæstv. ráðherra komið þeim skilaboðum til Evrópusambandsins að það sé eitthvað að innlánstryggingakerfum þess ágæta sambands þar sem það dekkar ekki sparifjáreigendur þegar um mikið hrun er að ræða eins og varð á Íslandi?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það vegna þess að mér finnst að menn á Íslandi hugsi allt of lítið um hag sparifjáreigenda, það er aðallega verið að ræða um skuldara. Um 80% af innlánum á Íslandi eru óverðtryggð með um það bil 2,5% vöxtum að hámarki í 5% verðbólgu. Sparifjáreigendur tapa sem sagt alla daga hjá bönkunum sem setja milljarða í að bjarga heimilum úr skuld, sem er að sjálfsögðu réttmætt, og á meðan tapa sparifjáreigendur.