140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[18:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir ræðuna þar sem hún fór yfir afstöðu sína og af hverju hún valdi að vera með á þessari þingsályktunartillögu, og hún fjallaði líka um þau álitamál sem við erum að takast á við.

Hv. þingmaður talaði um stöðu norskra foreldra sem eru fastir með börn sín á Indlandi og sagði að þetta ætti líka við um Frakkland. Ég þekki helst dæmin frá Noregi. Noregur hefur þótt fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að mannréttindum og því að virða alþjóðasáttmála. Þessi umræða hefur verið mjög heit hjá þeim og umræðan um stöðu þeirra barna sem fædd eru með staðgöngumæðrun og eiga að njóta borgaralegra réttinda eins og aðrir. Norðmenn eru að takast á við þetta og hvernig þeir eigi að greiða úr stöðu þessara barna en jafnframt eru þeir að velja þá leið að ganga lengra í að koma í veg fyrir staðgöngumæðrun.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann, af því að hún lýsir því að þetta séu óviðunandi aðstæður, hvort ekki komi til greina að í stað þess að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé litið til þeirra leiða sem Norðmenn eru að velja og fylgst með því hvernig þeir taka á þessum málum.