140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé að hluta til í höndum lögreglunnar sjálfrar að taka frumkvæði að því að starf hins almenna lögreglumanns sé metið að verðleikum. Sú þróun hefur orðið á undanförnum árum sem lýtur að framgangi lögreglumanna í starfi að yfirbygging innan lögreglunnar hefur aukist verulega og sívaxandi hópur lögreglumanna og raunar meiri hluti þeirra sinnir skrifstofustörfum og einhvers konar stjórnunarstörfum í stað almennrar löggæslu. Það er umhugsunarefni hvort þessi þróun hefur orðið til góðs og til þess að ýta undir virðingu bæði almennings og lögreglunnar sjálfrar fyrir almennum löggæslustörfum.

Ég held að það gæti verið innlegg í kjaramál lögreglunnar núna að hugleiða nýjar leiðir til að umbuna lögreglumönnum í starfi frekar en að setja þá við skrifborð og bæta heitinu -stjóri við starfsheiti þeirra. Ég held að það sé tímabært að störf almennra lögreglumanna sem starfa á götunni, eins og það er kallað, eða á vettvangi, verði metin að verðleikum og þeim umbunað sérstaklega í ljósi áhættu og erfiðis sem fylgir störfum á vettvangi þannig að tillit sé tekið til þessara þátta í kjaragrunninum sjálfum. Eins og ég sagði er það í höndum lögreglunnar sjálfrar og þeirra sem semja fyrir hennar hönd að taka frumkvæði að því að endurmeta þessa þætti í framgangskerfi lögreglunnar.

Löggæslan er einn af hornsteinum réttarríkisins, eins og við vitum, og ekki síst þess vegna er mikilvægt að huga vel að hlutverki lögreglu og meta störf hennar að verðleikum. Það er líka mikilvægt, sem ég vil líka nefna hér, að stjórnfesta, löghlýðni og skilvirkni séu við lýði innan löggæslunnar á Íslandi (Forseti hringir.) þannig að gagnkvæmt traust geti ríkt milli lögreglu og almennings.