140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að við þurfum öll að viðurkenna í þessum sal að oft eru sjónarmið harla mótsagnakennd. Mörgum finnst slæmt að borga skatta og háa skatta. Sömu aðilum finnst slæmt þegar skorið er niður hjá hinu opinbera og vilja helst hafa laun opinberra starfsmanna sem allra hæst og kjörin sem allra best. Það er þó samhengi þarna á milli.

Um eitt erum við sammála, þ.e. að við viljum láta fara vel með almannafé. Um það á umræðan í þessum sal að snúast. Það er einmitt þetta sem viðleitnin gengur út á í innanríkisráðuneytinu varðandi löggæsluna. Fyrir fáeinum árum voru lögregluumdæmin í landinu hátt í 30 talsins, hátt á þriðja tuginn. Núna eru þau 15. Fyrir þinginu liggur frumvarp um að færa þau niður í átta. Til hvers er þetta gert? Til að efla löggæsluna, efla stjórnsýsluna og gera það sem hv. þm. Skúli Helgason talaði um, að færa fjármuni frá stjórnsýslunni til almennrar þjónustu.

Um leið og ég segi þetta vil ég vara við því að gera lítið úr stjórnsýslunni og skipulagsvinnu. Þótt menn vinni við skrifborð er sú vinna iðulega nauðsynleg. Það er alveg hárrétt sem hv. fyrirspyrjandi Birgir Ármannsson nefndi í lokasvari sínu, að viðfangsefnin sem sinnt er af hálfu ríkislögreglustjóra gufa ekkert upp þótt skipulagsformum þar yrði breytt. Hann nefndi sérsveit lögreglunnar sem umdæmin úti á landi vilja gjarnan hafa skipulagða á landsvísu. Þar fara fram alþjóðleg samskipti sem við viljum einnig hafa góð og í traustum farvegi. Bílaflotinn er skipulagður í því embætti.

Ég vara við patentlausnum, þær lækna engan vanda. Það er verið að vinna á markvissan og skipulegan hátt að því innan innanríkisráðuneytisins að fara eins vel með þá fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar á þessu sviði og nokkur kostur er.