140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Að mínu mati eru fangelsismál hér á landi í algjörum ólestri. Fangelsisvistun er síðasti endapunktur lagasetningar hafi einstaklingur gerst brotlegur við lög. Rétt áðan fór fram umræða um löggæslumál sem eru, eins og fangelsismálin, ein af grunnstoðum samfélagsins ásamt dómsmálum.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sinnt þessum málaflokkum og hefur skorið niður fjármagn til þessara grunnstoða. Til að réttarríki geti þrifist þarf að tryggja fjármagn til reksturs þessara málaflokka.

Nú liggur í innanríkisráðuneytinu ítarlegur spurningalisti um fangelsismál frá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og hafa þinginu enn ekki borist svör við þeim spurningum. Það breytir því ekki að við þurfum alltaf að hafa fangelsismál vakandi í umræðu á þingi því að þetta er afar mikilvægur málaflokkur.

Fangelsismál á Íslandi í dag snúast fyrst og fremst um mannréttindi — eða eigum við að segja um mannréttindabrot? Þegar einstaklingur hefur verið dæmdur til fangelsisvistar á hann skilyrðislausan rétt á afplánun samdægurs. En nú er raunin ekki sú hér á landi vegna langs biðlista. Biðlistinn hefur lengst mikið á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að árið 2003 voru 53 einstaklingar á biðlista en í dag bíða 370 einstaklingar eftir að fá að afplána sína dóma í fangelsum landsins.

Þrátt fyrir að fangelsið Bitra hafi verið starfrækt í tvö ár hefur dómþolum á listanum fjölgað á þeim tíma um 70 manns. Það er kannski vegna þess að refsingar hafa verið að þyngjast og enn stöndum við frammi fyrir því að það á eftir að koma í ljós hversu margir einstaklingar verða dæmdir eftir rannsóknir 80 starfsmanna sérstaks saksóknara. Ef af þeirri afurð verður á eftir að koma í ljós hversu fjölmenn hún verður. Hér vantar úrbætur strax. Ríkisstjórnin saltar málin, ríkisstjórnin tekst á innbyrðis og getur ekki tekið ákvörðun um framtíðarsýn og stefnu í fangelsismálum, því miður, frekar en í öðrum málaflokkum. Á meðan þjást dómþolar og fjölskyldur þeirra. Alvarlegasti hluturinn er þó sá að ekki er hægt að boða einstaklinga til að taka út vararefsingu vegna sektargreiðslna.

Fyrir stuttu var upplýst að ógreiddar fjársektir væru um 3 milljarðar. Talið er að bygging nýs fangelsis kosti 2 milljarða. Þess vegna bendi ég á að þarna er 1 milljarður í afgang, hæstv. innanríkisráðherra. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að bretta upp ermar, taka ákvarðanir, framkvæma, höggva á þennan hnút. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarathöfnum sínum og athafnaleysi. Dómsmál gætu vofað yfir vegna mannréttindabrota, aðrir bíða eftir að dómar fyrnist. Er það ásættanlegt? Hvaða skilaboð er verið að senda út í þjóðfélagið með því að dæma menn og láta dóma fyrnast? Jú, sjálfkrafa bera einstaklingar minni og minni virðingu fyrir lagasetningu Alþingis, brjóta og hunsa lög svo skapast glundroði og stjórnleysi. Það er einmitt einkenni þessarar ríkisstjórnar að skapa glundroða og stjórnleysi, bera ekki virðingu fyrir þeim stoðum sem eru þó enn virkar hér á landi.

Allir vita að uppbygging fangelsa hér á landi er í miklum ólestri. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er rekið á undanþágu. Samkvæmt mínum upplýsingum er sífellt erfiðara að fá undanþágu heilbrigðiseftirlitsins vegna reksturs Hegningarhússins. Stafar það fyrst og fremst af því að heilbrigðisyfirvöld vilja fá nákvæmar upplýsingar um hvenær megi búast við að Hegningarhúsinu verði lokað. Kópavogsfangelsið uppfyllir varla kröfur og fangelsið í Bitru var ekki byggt sem fangelsi þótt fangelsi sé rekið þar í dag. Það þarf að byggja gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi í Reykjavík að mínu mati og halda áfram uppbyggingu á Litla-Hrauni, hvort tveggja mannaflsfrekar aðgerðir sem kosta lítið í hinu stóra samhengi sem lagt er í ríkisrekstur nú um stundir. Fangelsismálin þurfa að vera í forgrunni nú þegar biðlistar eru langir og nýting fangelsisrýma í hámarki. Sparnaðurinn samkvæmt nýja fjárlagafrumvarpinu er sá að jafnvel þurfi nýtingin að fara í 110% eða 120%.

Ég spyr því hæstv. innanríkisráðherra: Hvenær verður Hegningarhúsinu lokað? Hvenær verður tekin ákvörðun um byggingu nýs fangelsis og framkvæmdir hafnar? Sér ráðherra fyrir sér að byggja jöfnum höndum upp á Hólmsheiði og Litla-Hrauni? Hvaða framtíðarsýn hefur ráðherrann yfir höfuð í þessum málaflokki?