140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[12:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga. Ég hef stundum sagt að þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum, sem við höfum nú ráðist í, hafi Sameinuðu þjóðirnar fundið upp hjólið í því sambandi. Þær eru með tilbúinn pakka sem þjóðir geta nýtt sér en við höfum verið að rembast við að velta þríhyrningi og stundum án áttavita, við höfum ekki alveg vitað á hvaða leið við værum. En nú er svo komið að við erum búin að slípa hornin af þríhyrningnum og komin langleiðina. Ég held að langflestir sem ég hef rætt þessi mál við sem á annað borð vildu leggja í þessa vegferð séu nokkuð sáttir við niðurstöðu stjórnlagaráðs.

Það er svoleiðis með allar svona tillögur sem unnar eru í stærri hópi að niðurstaðan er kannski ekki draumaniðurstaða neins. Ef ég eða við hjónin hefðum til dæmis tekið páskahelgina í að semja stjórnarskrá held ég að niðurstaðan hefði verið önnur. En þetta er hin lýðræðislega niðurstaða og mér finnst stjórnlagaráð hafa unnið ákaflega gott starf. Þótt hugsanlega séu einhverjir vankantar á frumvarpinu sem ég tel rétt að fara vel yfir finnast mér þeir ekki stórvægilegir.

Það ferli sem lagt er til held ég að virki. Ég vil líka minna á að allir eru sammála um að stjórnlaganefndin hafi unnið mjög gott starf í aðdraganda stofnunar stjórnlagaráðsins. Þar er það fólk sem við á Alþingi komum okkur saman um öll sem eitt, jafnvel þeir sem voru á móti ferlinu, að væri besta fólkið í stjórnlaganefnd. Mér finnst þau hafa staðið fullkomlega undir því trausti.

Stjórnlagaráðið fékk stuttan tíma. Það er kannski írónískt í ljósi sögunnar að það var vegna þess að gerður hafði verið húsaleigusamningur við Kvikmyndaskóla Íslands sem er ekki enn þá farinn að starfa, en vonandi styttist í það. En það sem mér fannst mjög mikilvægt í ferlinu hjá stjórnlagaráði var að það gátu allir haft áhrif sem vildu. Það gátu allir sent inn hugmyndir og tillögur. Það gerðu það auðvitað ekki allir en ferlið var opið og allir sem vildu gátu fylgst með. Og ólíkt því hvaða álit almenningur hefur á störfum okkar á Alþingi held ég að fólk beri gríðarlega mikið traust til stjórnlagaráðs. Mér finnst mjög mikilvægt að við á þingi sem höfum það vald að geta breytt stjórnarskránni eftir flóknu ferli, sameinumst um ákveðið ferli. Við vorum sammála um það langflest að Alþingi gæti ekki gert stórvægilegar breytingar á stjórnarskránni, þess vegna útvistuðum við þessu verkefni. Við ætluðum að útvista því til stjórnlagaþings en stjórnlagaráð, næstum eins skipað, var lendingin. Við erum langflest sátt við niðurstöðuna, held ég. Við eigum eftir að ræða það betur í næstu viku. Alþingi mun hafa síðasta orðið, þannig er það samkvæmt þeirri gildandi stjórnarskrá sem við verðum að virða, við getum ekki breytt því, en við getum ákveðið að klára ferlið með þessum hætti. Mér finnst mjög mikilvægt og kannski mikilvægast af öllu að við klárum það saman og að við treystum fólkinu í landinu fyrir lokaniðurstöðunni. Við leggjum málið í dóm þjóðarinnar og ef þetta er ómögulegt mun þjóðin segja okkur það. Við þurfum ekkert að óttast að hún geri það ekki.

Svo eru einhverjir sem segja að við þurfum ekki nýja stjórnarskrá og að hér hafi í rauninni ekki orðið neitt hrun heldur hafi bara þrjú fyrirtæki farið á hausinn og það krefjist ekki grundvallarbreytinga á skipulaginu hjá okkur. Ég er ósammála því. Ég er reyndar jafnósammála því þótt hrunið hefði ekki orðið því að sú stjórnarskrá sem við búum við núna er í grunninn samin fyrir 19. aldar Dani sem bjuggu við einræði. Þótt við höfum breytt henni og þótt það sé margt ágætt í henni er hún ekki löguð að þörfum Íslendinga á 21. öldinni. Það sem mér finnst skipta langmestu máli er að hún er ekki upprunnin hjá okkur, hún er ekki okkar. Við vorum nýlenduþjóð þegar við fengum þessa stjórnarskrá. Við vorum ekki frjáls þjóð. Við höfum einhvern veginn unnið okkur frá því, en í grunninn er hún ekki okkar. Eftir að hér hrundi allt hjá okkur verðum við að skoða grunninn, skoða á hverju við viljum byggja þjóðfélag okkar, hverjar grunnstoðirnar í þjóðfélaginu eiga að vera.