140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:13]
Horfa

Flm. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að styðja þessa tillögu sem ég held að sé mikilvæg. Óháð því hvort lög og reglur um neytendavernd á fjármálamarkaði séu nógu góð á Íslandi eða ekki er augljóst að neytendur hafa borið skarðan hlut frá borði. Ég held að það sé einstaklega mikilvægt, þess vegna hef ég reynt að hafa þessa tillögu víða, að fara nákvæmlega yfir hvernig gildandi lög og reglur eru. Eru þau fullnægjandi, eru þau í samræmi við lög og reglur innan Evrópusambandsins um þessi mál? Ekki síður þurfum við að beina sjónum okkar að skipan þessara mála innan Stjórnarráðsins og innan eftirlitsstofnana hins opinbera og fara yfir hvernig þarf að bæta uppbyggingu þeirra. Þarf að búa til nýja stofnun þar sem lagður er niður einhver hluti þeirra stofnana sem við erum með núna? Ég held að það þurfi að horfa á þetta í víðu samhengi og róttækt til að koma þessum málum í miklu betra horf.

Það kann að vera rétt sem hv. þingmaður segir, frú forseti, að lögin séu góð en þess þá heldur þurfum við að tryggja að farið sé eftir þeim. Þessi tillaga miðar að því að svo verði.