140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

vextir og verðtrygging.

9. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga sem ég hef flutt áður en hefur því miður ekki komist í gegn. Nokkrir þingmenn eru meðflutningsmenn en enn fleiri hafa lýst stuðningi við málið í umræðu um það. Ég lagði mikla áherslu á að þetta yrði fyrsta mál þannig að ég var á hlaupum þegar ég setti þetta mál hér inn í þingið. Fyrir þá sem ekki þekkja til skiptir máli að koma málum að sem allra fyrst svo að líkur séu á að þau fái efnislega meðferð í nefnd og fari alla þá leið að verða að lögum.

Við fjölluðum mikið um dóma í tengslum við erlend lán sem voru dæmd ólögmæt, eða ákveðnar tegundir þeirra, í hv. viðskiptanefnd. Ég spurðist, ásamt öðrum hv. þingmönnum í viðskiptanefnd, fyrir um það hvaða áhrif það hefði á bankana ef þetta færi á versta veg fyrir þá. Það vakti athygli mína að sú stofnun sem hefur eftirlit með því og reiknaði þetta út taldi að þetta hefði mjög lítil áhrif, sem mér fannst ekki alveg ganga upp miðað við stærð málsins. Í kjölfarið var þetta frumvarp samþykkt af ríkisstjórnarmeirihlutanum og var nú gengið fram með það af miklum hraða en það fór einhverra hluta vegna ekki í gegnum hv. viðskiptanefnd — ef ég man rétt, og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir leiðréttir mig kannski, fór þetta í gegnum efnahags- og skattanefnd. Færa má full rök fyrir því að það hafi ekki verið skynsamlegt, en látum það liggja milli hluta. Í það minnsta er niðurstaðan sú að í þessum lögum er reikniregla, og bankar og fjármálastofnanir sem við höfum fengið á fund nefndarinnar hengja sig í það, sem gerir það að verkum að lánin eru reiknuð út með ákveðnum hætti. Við getum sagt að í sinni einföldustu mynd sé það gert þannig: Segjum að þú hafir tekið lán árið 2005. Þá er í raun sagt við þig: Við skulum láta eins og þú hafir ekki tekið erlent lán heldur lán með óverðtryggðum vöxtum í Seðlabankanum. Við tökum það sem þú hefur greitt inn og drögum það frá láninu og vöxtunum. Þetta hljómar kannski allt ágætlega, en eini gallinn við þetta er sá að þetta kemur einstaklega illa út fyrir lánþega því að ekki er tekið tillit til þess að viðkomandi lánþegi hafi greitt niður höfuðstólinn.

Ég vísa til þess, virðulegi forseti, að lánþegar greiða lánin niður í hverjum mánuði. Það stendur mjög skýrt, til dæmis á verðtryggðu lánunum, að lánþegi greiði höfuðstólinn niður um ákveðnar krónur, þannig er það almennt metið. Menn vísa í konungsúrskurð, ef ég man rétt, frá því í lok 18. aldar hér á Íslandi hvað það varðar en slík venja er væntanlega enn eldri annars staðar. En í þessum útreikningi taka menn ekki tillit til þess að höfuðstóllinn hafi verið greiddur niður. Því eru reiknaðir vextir og vaxtavextir af allri upphæðinni. Í ofanálag, sem að vísu er annað mál, og hefur komið fram í svörum við fyrirspurnum mínum, eru menn að taka vaxtavexti af þessum lánum, setja að vísu vaxtavexti líka á þær innborganir sem greiddar hafa verið, en vextirnir hafa ávallt verið lægri af innborgunum en af höfuðstólnum eðli máls samkvæmt, því að höfuðstóllinn er hærri upphæð. Samkvæmt lögum, eins og ég skil þau, má setja vaxtavexti á 12 mánaða fresti, en í það minnsta þrjú fyrirtæki taka vaxtavexti mánaðarlega. Vaxtavextir eru í sinni einföldustu mynd þannig að ef höfuðstóllinn hefur verið milljón og vextir 20%, þá eru þessi 200 þúsund sett ofan á milljónina eftir 12 mánuði þannig að næstu 12 mánuði þar á eftir er reiknað út frá 1,2 milljónum.

Varað hefur verið við því að fara þessa leið. Sú sem gekk einna lengst í því er Ása Ólafsdóttir sem gegnir stöðu í Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað lærðar fræðigreinar, bæði hér heima og erlendis, út af þessari lagasetningu þar sem hún telur að hún standist ekki.

Í morgun, eins og margir hafa tekið eftir, eru síðan heilsíðuauglýsingar í blöðum. Ég er hér með Morgunblaðið og auglýsingin er undir fyrirsögninni: „Er bankinn að þurrausa þig — er komið að síðasta dropa?“ Síðan er hér dæmi um endurreikning. Í auglýsingunni segir: „Lánið er tekið í janúar 2006 upp á 9.125.921. Greiðslur til Glitnis/Íslandsbanka í febrúar 2011 eru 4.650.549. Réttar eftirstöðvar ættu að vera 4.475.372, en eftirstöðvar eftir endurútreikning Íslandsbanka eru 11.469.523. Ágreiningur milli lántaka og banka er 6.994.151.“ Síðan segir: „Er þetta réttlæti? Er hagnaður bankanna fólginn í þínu tapi?“

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki þetta einstaka dæmi og þekki ekki þennan hóp annað en það sem ég hef séð í fjölmiðlunum. Ég hef hins vegar reitt mig mikið á útreikninga Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda á Akureyri, en eftir að þessi mál komu upp og hann skrifaði um þetta grein hafði ég samband við hann og bað hann einfaldlega — svo að ég segi það bara eins og það er — að kenna mér þetta. Þetta var mjög flókið. Á þeim tíma var hann búinn að eyða 40 stundum, hann er mjög nákvæmur maður þessi endurskoðandi, í að stúdera þessi mál og að sjálfsögðu án þess að fá neina þóknun fyrir, honum ofbauð bara eftir að vera búinn að fá ýmsa útreikninga fyrir viðskiptavini sína inn á sitt borð.

Til að reyna að útskýra þetta setti ég á heimasíðuna mína, gudlaugurthor.is, nokkuð sem ég kalla lánareikni. Menn geta sett inn sínar forsendur og séð hverju munar eftir því hvort tekið er tillit til greiðslu inn á höfuðstól eða hvort farið er eftir þeirri reiknireglu sem sett var í lög. Þar munar mjög mismunandi háum upphæðum eftir forsendum, en alla jafna munar þarna verulegu.

Virðulegi forseti. Í besta falli er þessi vandi tilkominn vegna þess að við vönduðum okkur ekki nógu vel. Nú er tækifæri til að fara vel yfir málin, sérstaklega af því málið er lagt einstaklega snemma fram, á fyrstu dögum þingsins. Ef vilji er fyrir hendi hjá fleirum en þeim hv. þingmönnum sem eru í stjórnarandstöðu í nefndinni gefst nú tækifæri til að fara vel yfir málið. Það er enginn að biðja um annað. Það er enginn að halda því fram að þetta sé einfalt mál, það vitum við sem höfum verið að skoða það. En ég hef ekki fengið nein málefnaleg rök fyrir því að sú leið sem var farin hafi verið til hagsbóta fyrir neytendur, þvert á móti.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að þegar dómarnir gengu í gegn um að þetta væru ólögleg lán, þ.e. þau sem í daglegu tali eru kölluð gengislán, þá hugsaði ég: Þetta var nú svolítil himnasending, þá leysist alla vega þessi lánastabbi svolítið af sjálfu sér. Þá getum við einbeitt okkur að þeim sem eru með verðtryggðu lánin og reynt að leysa vanda þeirra. En okkur tókst ekki sem skyldi. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, er hér í salnum, sem mér finnst alveg til fyrirmyndar og vil þakka honum fyrir það. Ég vona að hann taki þátt í umræðunni og vonast til þess að sem breiðust samstaða verði um að fara vel yfir þetta mál þannig að við getum leiðrétt þau mistök sem við höfum gert, en til þess er umrætt frumvarp lagt fram.