140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[16:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið málefnaleg og góð. Ég get tekið undir með kannski flestu sem hér hefur komið fram en ég ætla ekki að fara að endurtaka allt sem hér hefur verið sagt. Ég held að það sé þrennt sem skiptir máli og fólk þurfi að hafa í huga.

Í fyrsta lagi er ástæðan fyrir þessum leiðréttingum sú að lánveitendur fóru óvarlega. Það er ekki þannig að þeir hafi sagt: Okkur þykir svo vænt um ykkur, íslenska þjóð, að við ætlum að setja leiðrétt lán þarna á milli gömlu og nýju bankanna. Það er vegna þess að þeir töldu þetta tapað fé. Síðan reyna þeir eðli máls samkvæmt að hámarka sinn arð eins og allir aðrir.

Þá erum við komin að öðrum þætti sem ég held að geri það að verkum að allir tapa. Það eru tveir vítahringir. Annars vegar er tortryggnisvítahringurinn, fólk veit ekki hvað er fram undan. Hæstv. ráðherra svaraði því til dæmis ekki af hverju var munur á tölum Seðlabankans og tölunum sem við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson erum með, sem eru að vísu líka misvísandi. Hins vegar er þessi efnahagslegi vítahringur sem er til kominn vegna þess að heimili og fyrirtæki skulda of mikið. Meðan heimili og fyrirtæki skulda of mikið fer efnahagslífið ekki af stað. Þar af leiðandi getum við ekki skapað verðmæti í þjóðfélaginu. Það eru þessir tveir vítahringir; efnahagslegi vítahringurinn og tortryggnisvítahringurinn.

Við getum ekki að mínu áliti, virðulegi forseti, komið okkur út úr þessum vítahringum nema með því að veita upplýsingar. Þess vegna fer ég náðarsamlegast fram á það við hæstv. ráðherra að hann svari skýrt spurningunni: Er hæstv. ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að óháður aðili, t.d. Ríkisendurskoðun, komi að málinu, fari yfir þessi gögn og gefi mat á því hvaða tölur eru réttar þannig að við þurfum í það minnsta ekki að eyða tíma okkar hér og í öllu þjóðfélaginu í að deila um hverjar þær eru?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir málefnalega og góða ræðu, en vil svo gjarnan fá svar við þessari einföldu spurningu.