140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra segir að gera eigi grein fyrir skuldbindingum í fjárlögum og fjáraukalögum. Ég man aldrei eftir því að Icesave hafi verið nefnt í fjárlögum eða fjáraukalögum, samt var gerður um það samningur undirritaður af hæstv. fjármálaráðherra og samt voru samþykkt um það lög, sem þjóðin sem betur fer felldi. Það var aldrei minnst á Icesave í fjárlögum eða fjáraukalögum, aldrei. Sagan er því ekki nógu góð.

Varðandi Sparisjóð Keflavíkur fer fjármálaráðherra auðvitað enn einu sinni að afsaka sig með forverum sínum. Sparisjóður Keflavíkur var í miklum vanda og það átti að taka á honum strax og það var ekki gert strax. Það var beðið og beðið með það og Sparisjóður Keflavíkur safnaði innstæðum eftir að hæstv. fjármálaráðherra tók við og jók skuldbindingu skattgreiðenda.