140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu og get tekið undir nánast hvert orð sem hann sagði. Ég vil byrja á að taka fram að ég tel að fjáraukalög hafi í tíð þessarar ríkisstjórnar verið mun hóflegri en áður og sýnt vilja til verklagsbreytinga þó að sannarlega megi gera betur, svo því sé til haga haldið.

Vegna þess álits sem fjárlaganefnd stóð að í sameiningu vil ég einmitt fara yfir að þar er sérstaklega talað um 6. gr. heimildir og að þær séu of rúmar og rétt sé að þrengja þær og skilgreina betur hvað í þeim felst. Hæstv. fjármálaráðherra hefur reyndar farið vel yfir þær heimildir sem helst hafa verið til umræðu í dag og lýst yfir vandanum við að festa þar niður ákveðnar fjárhæðir og ég held að við höfum öll skilning á því.

Varðandi neyðarlögin hefur fjárlaganefnd lýst því yfir að í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagsmálum þurfi að meta þörfina á óbreyttum neyðarlögum. Ég vil í þessu sambandi líka minna á að hér hafa fallið yfirlýsingar um fulla innstæðutryggingu. Reyndar hefur andstaða verið við það í þinginu við að breyta lögum um innstæðutryggingar. Eiginlega er spurning mín til þingmannsins svolítið fáránleg af því ég veit að við erum sammála. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji ekki einmitt að þessi grein varðandi SpKef sýni (Forseti hringir.) að áhyggjur fjárlaganefndar sem birtast í álitinu séu ekki horfnar út af borðum okkar og að þetta verði viðfangsefni okkar á næstu árum og að við þurfum að fara mjög alvarlega yfir þessi mál.