140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það þarf að taka ríkisfjármálin miklu fastari tökum en við höfum gert og því verður að breyta. Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju menn eru að láta faglegu vinnuna þvælast fyrir sér, þ.e. það sem ég tel að hv. fjárlaganefnd eigi að gera. Faglega starfið í nefndinni er að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Hvað pólitísk átök í kringum fjárlögin snertir, þá getum við tekið rökræður hér um hvort við viljum forgangsraða öðruvísi í samfélaginu, hvort sem það eru tekjur eða útgjöld. En faglega vinnan innan hv. fjárlaganefndar á að vera, eins og hv. þingmaður benti á, eins og segir í skýrslunni, sem ég tel að hafi verið mikilvæg áfangaskýrsla. Hún sýnir og staðfestir að hv. fjárlaganefnd vill breyta vinnubrögðunum og ætlast til að þeim verði breytt. Það er niðurstaðan. Enda hefur hún vakið mikla athygli.

Þegar maður er búinn að sjá skýrslur frá Ríkisendurskoðun, ár eftir ár, með nánast algjörlega sömu athugasemdunum og aðeins breytingu á dagsetningu og ártali, er fyrir löngu kominn tími til að breyta. Líka því sem ég er óþreytandi að ræða hér, um markaðar tekjur. Þegar fjárlög eru samþykkt á Alþingi erum við að ákveða að ákveðnar stofnanir fái sinn útgjaldaramma. En svo er fullt af stofnunum sem ganga lausar í kerfinu og hafa svokallaðar sértekjur eða markaðar tekjur. Þær geta nánast vaxið um eins mikið og þeim sýnist. Það kemur ekki fram hvað gerst hefur fyrr en í ríkisreikningi fyrir viðkomandi ár. Ég er margbúinn að benda á fullt af stofnunum. Það dapurlegasta við þetta er að sumar þessara stofnana ná sér í tekjur úr einstaka ráðuneytum, þ.e. ráðherra úthlutar tekjum til viðkomandi stofnana. Ég sætti mig ekki lengur við það að á sama tíma og verið er að skera niður til heilbrigðismála, velferðarmála og allra þessara viðkvæmu málaflokka, (Forseti hringir.) gangi ákveðnar stofnanir lausar. Þessu verður að breyta.