140. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2011.

staðfesting aðalskipulags.

45. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli er varðar sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um skipulagsvald og þær hugmyndir sem hafa tengst landsskipulagi og áætlunum ríkisstofnana og síðan meðferð hæstv. ráðherra á þessum tillögum. Núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefur ítrekað lent í vandræðum með að staðfesta aðalskipulag sveitarfélaga, ekki síst á landsbyggðinni, er snerta mál sem í eru kannski fólgin einhver pólitísk ágreiningsefni er varða virkjanir og slíka hluti. Maður veltir fyrir sér hvort þetta mál verði næstu vandræði í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélaganna, þ.e. að þær áætlanir sem til að mynda Vegagerðin, Landsnet eða aðrar slíkar stofnanir setja á laggirnar geti síðan farið að þvælast fyrir í samskiptum (Forseti hringir.) ríkisvaldsins og sveitarfélaganna. Það er ekki gott, þess vegna er mjög mikilvægt að þessu máli sé hreyft og við þurfum að finna á því einhverja lausn.