140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil gera að umtalsefni undir þessum lið. Í fyrsta lagi héldum við að ósk minni og sjálfstæðismanna fund með bankastjórum stóru bankanna hjá efnahags- og viðskiptanefnd í gærmorgun. Þar kom ýmislegt fram og m.a. staðfestist það sem öllum ætti að vera ljóst, að ríkisstjórnin er með allar þær upplýsingar sem máli skipta varðandi hluthafasamkomulag milli gömlu og nýju bankanna og leiðréttingu lána þar á milli. Því er ekkert að vanbúnaði að ríkisstjórnin upplýsi um það, og hef ég lagt fram fyrirspurn þess efnis, að bæði hluthafasamkomulagið og fylgiskjölin verði gerð opinber.

Síðan vildi ég eiga orðastað við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, vegna þess að ég sendi nefndinni bréf í morgun þar sem ég fór fram á það, enda algerlega sjálfgert, að skoðaðar verði ákvarðanir og verklag hæstv. fjármálaráðherra í tengslum við Byr og SpKef. Það liggur fyrir og hver maður getur séð að Byr uppfyllti ekki lögbundnar eiginfjárkröfur í 28 mánuði. Það eru margir gallar við það, m.a. að það er ólöglegt. Eins liggur fyrir að hann fór ekki eftir lögum um að láta Bankasýsluna fara með eignarhlut í fyrirtækinu og sömuleiðis gerði hann samkomulag við slitastjórn sem stenst heldur ekki lög.

Ég gæti farið yfir margt fleira, virðulegi forseti, en ég ætla ekki að gera það hér. Ég vek athygli á því að eignir Byrs hafa rýrnað um 113 milljarða á síðustu tveimur árum í umsjá ríkisins. Ef hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoðar ekki (Forseti hringir.) ákvarðanir og verklag hæstv. ráðherra er spurning til hvers hún starfar.