140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Skýrsla eftirlitsnefndarinnar er góð leiðsögn fyrir þingið um þann hluta aðgerða gegn skuldavanda sem lúta að löggjöf á okkar vegum. Ég tel að störf nefndarinnar og skýrslur hennar sýni okkur að það var hárrétt ákvörðun hjá hv. félags- og trygginganefnd haustið 2009 að setja nefndina á laggirnar til að auka gegnsæi í aðgerðum fjármálastofnana og byggja upp traust almennings á aðgerðunum.

Varðandi 110%-leiðina eru þrjár aðkallandi spurningar fyrir þingið úr þessari skýrslu. Í fyrsta lagi er sú að umsóknir eru færri en búist var við og ég tel að þingið þurfi að kanna hvort fólk hafi misst af úrræðinu vegna umsóknarfrestsins og hvort bregðast þurfi við því. Þá tel ég að samkomulaginu hafi ekki verið fylgt að öllu leyti en þingið setti lög um 110%-leið Íbúðalánasjóðs samkvæmt samkomulaginu og nefndin gerir athugasemdir við skort á gagnsæi hvað þetta varðar og telur að betra hefði verið að gera sameiginlegan viðauka við samkomulagið. Ég tek undir það, enda gerðum við sem löggjafi ráð fyrir því að þetta samkomulag væri grundvöllurinn að lagasetningu okkar. Í þriðja lagi er fjallað um lánsveð sem falla utan 110%-leiðarinnar. Það er mjög bagalegt því að það bitnar fyrst og fremst á kaupendum sem fjárfestu í fyrstu íbúð á tímabilinu 2004–2008 og tóku húsnæðislán í mikilli eignabólu. Lánsveðin eru eignarréttarvarin og við höfum stöðugt lent í vandræðum með úrræði eins og greiðsluaðlögun og 110%-leið vegna þeirra. Við verðum nú að fá upplýsingar um þessi veð, umframveðsetningu þeirra og kostnað við niðurfellingu, og koma með tillögur á grundvelli þeirra upplýsinga. (Forseti hringir.)

Ég tek heils hugar undir þær óskir lánsveðhópsins að hann fái sömu meðhöndlun og aðrir með yfirveðsetningu. (Gripið fram í: Of seint.)