140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hafa litið dagsins ljós tillögur í efnahagsmálum frá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, plan B og plan D. Margt gott er þar lagt til enda erfitt að setja sig upp á móti heildarsvip þegar menn deila peningum út til hægri og vinstri um að lækka skatta, ætla að fara í aukin útgjöld og fjárfestingar. En gætum að því, virðulegi þingheimur, að grundvöllur þessara tillagna er góð staða ríkissjóðs. Menn geta komið fram með metnaðarfullar tillögur í kosningabaráttu um bættan hag vegna þess að ríkissjóður er nú í miklu betri aðstöðu en hann var þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Hér er ég að tala um kosningabaráttu innan flokka en ekki á milli flokka.

Grundvöllur þessara tillagna er að hér hafa verið teknar erfiðar ákvarðanir við rekstur ríkissjóðs. (Gripið fram í.) Hér hefur verið farið í erfiðan niðurskurð og tekjufall ríkissjóðs hefur verið stöðvað. Ríkissjóður var rekinn með 100 milljarða halla en nú er hann kominn í 40 milljarða í plús ef ekki væri fyrir vaxtagjöld. (Gripið fram í: Icesave.) Nú er sjálfbær rekstur ríkissjóðs handan við hornið því að hér voru við völd ábyrg stjórnvöld sem tóku erfiðar ákvarðanir. Og frú forseti, ég verð að viðurkenna að ég hefði alveg þegið meiri og betri stuðning við þær ákvarðanir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég hefði þegið betri og meiri stuðning í þessum þingsal þegar við þurfum að skera niður eða hækka gjöld.

Betur hefði farið á því og jafnvel aukið á trúverðugleika þessara tillagna frá íhaldsöflunum hefðu þau stutt við bakið á ríkisstjórninni þegar hún lagði grunn að þeim efnahagsbata sem menn keppast nú við (Gripið fram í.) að stæra sig af eða þá að koma fram með yfirboð. Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti: Þetta eru ágætar tillögur, (Gripið fram í: Takk.) en þær byggja á vanþakklátu starfi ríkisstjórnarmeirihlutans undanfarin tvö ár [Háreysti í þingsal.] sem hafa lagt grunn að þeim efnahagsbata sem við horfum nú fram á. (Gripið fram í.) Það hefði aukið á trúverðugleika þessara tillagna ef umræddir þingmenn (Gripið fram í.) hefðu komið með okkur í það óvinsæla verkefni sem við höfum staðið í undanfarin tvö ár. [Háreysti í þingsal.]