140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við þökkum hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir skemmtiatriðið. Þessi hv. þingmaður ætlaði að keyra Icesave hér í gegn og var stöðvaður af stjórnarandstöðunni. Og virðulegi forseti, [Kliður í þingsal.] ég vil bara segja við hv. þingmann: Ekkert að þakka. Ég þekki það nú að fara í niðurskurð og þekki það að taka nauðsynlegar ákvarðanir og ég horfi á nokkur andlit sem voru ekkert afskaplega mikið að styðja þá viðleitni. Nei, nei, þess í stað lofuðu þeir öllu fögru, sviku það; og ég horfi á hv. þingmann, fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar, sem ber væntanlega ábyrgð á því að nú er ekki nein starfsemi á St. Jósefsspítala. (Gripið fram í.) En ég hvet menn til þess að [Háreysti í þingsal.] skoða þær tillögur sem hv. þingmenn sem hér góla mótmæltu hressilega því að gert var ráð fyrir að þar yrði starfsemi þegar menn fóru í skipulagsbreytingar. Ég hvet menn, og sérstaklega fréttamenn, til að rifja upp orð þeirra manna sem hér berja sér á brjóst, og þakka aftur hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir skemmtiatriðið.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nú er gert ráð fyrir því að kostnaður við umboðsmann skuldara verði á næsta ári 1.050 millj. kr. Í lok þess árs munu 2.500 millj. kr. hafa farið í það embætti. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur öll að ef við hefðum bara nýtt þessa fjármuni, sem auðvitað eru greiddir, til skuldaniðurfærslna hjá heimilum hefðu 500 heimili til dæmis getað fengið 5 millj. kr. afslátt. Nú er ég bara í mestu vinsemd að velta þessu upp: Erum við að gera skynsamlega hluti? 2.500 millj. kr. í stofnun umboðsmanns skuldara, í rekstrarkostnað. (Forseti hringir.) Það þýddi 5 millj. kr. (Forseti hringir.) á 500 (MSch: Bankarnir borga.) — já, bankarnir borga, þá er sá kostnaður ekki til. (Forseti hringir.) Hv. þm. Magnús Orri Schram er snillingur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að virða tímamörk.)