140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir.

20. mál
[16:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gera heldur lítið úr öllu því forvarnastarfi sem búið er að vinna varðandi tóbak. Við erum með tóbaksvarnaráð, eða vorum með það, við erum með fjölda fólks sem vinnur að því alla daga á vegum ríkisins að upplýsa fólk um skaðsemi reykinga. Ég hef þá trú, það getur vel verið að hv. þingmaður sé annarrar trúar, að það sé það sem hafi minnkað reykingar hjá ungu fólki og fólki yfirleitt en ekki þau boð og bönn sem hafa verið innleidd. Ég hef þá trú en við getum deilt um það. En það er óumdeilt og hv. þingmaður getur ekki mótmælt því að vímuefna er neytt á Íslandi þrátt fyrir að það sé harðbannað að viðlögðum mjög þungum refsingum. Refsingarnar, sem sagt boðin og bönnin, virka ekki. Ég neita því að þessi boð og bönn til viðbótar muni stöðva tóbaksnotkun.

Svo segir hv. þingmaður að menn geti farið í apótek og fengið framvísun. Þá kemur að mjög athyglisverðri og áhugaverðri spurningu um hvort maður í lyfjaverslun eigi að gefa öðrum manni tóbaksseðil. Einum einstaklingi á hann að gefa tóbaksseðil til að vernda einhvern hóp af öðrum óskilgreindum einstaklingum. Hvers lags siðfræði er það? (Gripið fram í.) Segjum að maðurinn komi til læknis og sé illa farinn af tóbaksneyslu og í verulega mikilli hættu þá á læknirinn eða heilbrigðisstarfsmaðurinn að ávísa tóbaksseðli í öllum tilfellum til að vernda einhvern óskilgreindan hóp ungs fólks frá því að byrja að reykja, sem er ekki einu sinni vitað hvort muni virka. Ég hef enga trú á þessu og þar af leiðandi á ekki að framvísa svona seðlum.