140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

hitaeiningamerkingar á skyndibita.

24. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir enn einu málinu í dag sem er kannski þriðja málið í röð lýðheilsu- og neytendamála. Við höfum nú þegar mælt fyrir tóbaksvörnum og norræna Skráargatinu, hollustumerkinu og svo kemur þetta mál með hitaeiningamerkingar á skyndibita. Þetta er svona lýðheilsu- og neytendadagur í þinginu.

Ég vil taka fram að flutningsmenn eru 14 á þessu máli. Þeir eru úr öllum flokkum og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þá upp. Það er sú er hér stendur, Siv Friðleifsdóttir, og hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Magnús Orri Schram, Eygló Harðardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Björn Valur Gíslason og Þór Saari. Þetta eru þeir þingmenn sem telja að setja eigi hitaeiningamerkingar á skyndibita. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að beita sér fyrir því að sölustaðir sem selja skyndibita upplýsi á áberandi stað um magn hitaeininga í skyndibitaréttum sem þar eru seldir.“

Með þessu fylgir greinargerð. Málið var lagt fram á síðasta þingi, ekki náðist að mæla fyrir því, það kom seint fram þannig að það hefur ekki fengið skoðun í nefnd. Það mun fá það núna af því að það kemur snemma fram.

Það kemur fram að í nútímasamfélagi verður æ vinsælla að fá sér skyndibita, það er sú þróun sem við höfum séð. Mataræðið í vestrænum ríkjum hefur þróast í þá átt að skyndibitinn hefur unnið á gagnvart hefðbundnum heimilismat. Þessi þróun á án efa þátt í því að mörg ríki hafa gert lýðheilsuáætlanir þar sem áhersla er lögð á aukna hreyfingu og bætt mataræði almennings. Hér er hægt að slengja því enn á ný inn að við höfum ekki farið varhluta af þessari þróun varðandi of litla hreyfingu og kannski ekki alveg nógu gott mataræði, erum fjórða feitasta þjóð í Evrópu og samkvæmt upplýsingum frá OECD þjáist fimmtungur landsmanna af alvarlegustu tegund ofþyngdar á Íslandi. Þetta er eitthvað sem við viljum gjarnan taka á.

Mikil umræða hefur átt sér stað í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins, kannski sérstaklega í Bretlandi og Þýskalandi, um skyndibitastaði og nokkur ríki hafa átt samvinnu við skyndibitastaðina um að auðvelda neytendum að átta sig á hitaeiningainnihaldi matarskammta sem þar eru seldir. Hérna erum við enn á ný komin inn í umræðuna sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fór inn á áðan, það eru þessar upplýsingar, fólk vill upplýsingar. Það er svolítið fáránlegt að í áratugi hefur þótt sjálfsagt að upplýsa um innihald matvöru sem við kaupum úti í búð en þegar við förum á skyndibitastaði, sem selja gríðarlega mikið magn af einsleitri vöru, sömu vörutegundinni, þá veit enginn neitt. Það er mjög æskilegt að neytandi fái upplýsingar um innihald matarins á veitingastöðum, það er frekar auðvelt að reikna það út þegar um slíka fjöldaframleiðslu er að ræða.

Í Bandaríkjunum, svo sem í New York, Kaliforníu og Oregon, er gert ráð fyrir því að neytendum verði unnt að átta sig á hitaeiningainnihaldi matarskammtanna. Þá gæti neytandi til dæmis séð að í Big Mac hamborgara eru yfir 500 hitaeiningar eða allt að fjórðungur af daglegri hitaeiningaþörf karlmanns, sem er 2.500–2.700 hitaeiningar. Einnig má nefna að í einni pitsusneið á Pizza Hut geta verið 2.656 hitaeiningar, maður trúir þessu varla, þetta er ansi hátt. Í stórum Burger King mjólkurhristingi 612 hitaeiningar og í gulrótarköku hjá Starbucks 560 hitaeiningar o.s.frv. Það er mikilvægt að fólk fái upplýsingar um þessar tölur.

Í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að skyndibitakeðjur sem eru með meira en 20 útsölustaði upplýsi og merki hitaeiningainnihald skammtanna sem þar eru seldir. Það er talið að lýðheilsuáhrifin af merkingunni verði jákvæð þar sem neytendur munu færa neyslu sína yfir í hitaeiningasnauðari skyndibita fái þeir réttar upplýsingar á aðgengilegan hátt. Það er auðvitað svolítið galdurinn með þessu að fólkið geti þá valið hollari vöru, alla vega þeir sem það vilja, en líka að þeir sem eru að selja vöruna aðlagi sig, reyni að lækka hitaeiningatölurnar á bak við hvern rétt. Þeir munu gera það og ég ætla að lýsa því aðeins fyrir ykkur á eftir.

Gert er ráð fyrir því að upplýsingum um hitaeiningainnihald matarskammtanna sé komið á framfæri á einfaldan hátt við hvern rétt á matseðli, á veggspjöldum við afgreiðsluborð eða á afgreiðsluborðinu, þ.e. á sýnilegan hátt. Skyndibitakeðjurnar í Bandaríkjunum hafa snúist frá því að vinna gegn slíkum merkingum yfir í að styðja þær, meðal annars á þeim grundvelli að allar stærri keðjur verði með og komi réttum upplýsingum á framfæri við neytendur á samræmdan og einfaldan hátt. Keðjurnar í Bandaríkjunum hafa snúist frá andstöðu í stuðning svo framarlega sem allir verði með, aðrir stórir aðilar verði með, geri það eins og geri það á einfaldan hátt, þá vilja þeir vera með. Þetta er mjög framsýn hugmynd.

Reiknað er með að yfir 200 þúsund skyndibitastaðir í Bandaríkjunum verði með hitaeiningamerkingar á skömmtum sínum jafnvel strax á þessu ári en nákvæmari tímasetning fer eftir því hvort einhverjir höfða mál vegna merkinganna. Þetta er land málaferlanna, Bandaríkin. Í New York er talið að neytendur hafi nú þegar dregið úr hitaeininganeyslu um 50–100 hitaeiningar í hverri veitingahúsaferð vegna nýju merkinganna þannig að þetta reynist vel.

Í Bretlandi gerði Food Standards Agency (FSA) skoðanakönnun sem sýndi að 85% aðspurðra töldu að veitingastaðir, kaffihús og krár ættu að bera ábyrgð á að upplýsa um innihald matvöru sem þar væri seld og 80% töldu að slíkar upplýsingar mundu hafa áhrif á hvar viðkomandi veldi að borða. Fólk kallar eftir þessum upplýsingum og það telur að upplýsingarnar muni hafa áhrif á sig. Hefur breska ríkisstjórnin gert samkomulag við stærstu veitingahúsakeðjurnar sem selja skyndibita í Bretlandi um að þær gefi upp næringarinnihald matarskammtanna, en þær eru Burger King, KFC, McDonald´s, Mando´s, Subway og Wimpy. Einnig hafa keðjur eins og Pizza Hut, Pret A Manger og Starbucks verið nefndar í þessu sambandi.

Í lok greinargerðar þingsályktunartillögunnar kemur fram að það sé ljóst að það sé aðeins tímaspursmál hvenær neytendur muni krefjast þess að næringarinnihald skyndibita verði gefið upp þannig að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun þegar skyndibiti er keyptur. Við teljum tímabært að íslensk stjórnvöld taki af skarið og hefji samstarf, ég undirstrika það, við skyndibitakeðjurnar hér á landi um að merkja með hitaeiningainnihaldi skyndibitana sem þær selja. Náist ekki samstarf fram á tveimur árum þá verði hugað að því að skylda skyndibitastaðina til slíkra merkinga. Þarna er verið að gefa ákveðinn aðlögunartíma og reyna að hefja samstarf um þetta og sjá hvað skyndibitastaðirnir gera, hvernig þeir bregðast við. Ef ekkert gengur, sem ég á reyndar ekki von á, verði jafnvel skylda að gera þetta.

Ég get upplýst, og það er svolítið skemmtilegt að það skuli einmitt vera í dag, að í dag, út af þessu máli, út af nákvæmlega þessari þingsályktunartillögu, ákvað einn skyndibitastaður að taka upp merkingar af þessu tagi, og það er Metró, ég ætla að leyfa mér að upplýsa það hér. Þau á Metró sáu þessa tillögu í vor og ákváðu að fara í vinnu. Ég var þarna áðan á kynningu — þetta eru nýjustu fréttir af vettvangi — þar sem verið var að kynna það sem Metró er að gera. Þau hafa nú þegar merkt upp á vegg hitaeiningainnihald eins þriðja af þeirri vöru sem þeir selja. Þá eru þeir með mynd upp á vegg, annaðhvort af hamborgara, salati eða öðrum rétti, og á myndinni stendur 365 kaloríur eða 495 kaloríur.

Þeir ætla að vera búnir að merkja þetta allt í næsta mánuði, allar vörurnar uppi á veggnum þar sem maður pantar. Þessar tölur eru allar til og aftan á diskamottunum þeirra er nú þegar upplýst um hverja einustu vöru sem verið er að selja, um hitaeiningainnihald og reyndar meira. Þeir hafa ráðið til sín næringarráðgjafa, Fríðu Rún Þórðardóttur, sem hefur verið að hjálpa þeim í þessu og verið er að upplýsa um prótein, kolvetni, fitu, mettaða fitu, trefjar, salt o.s.frv. Þetta er gríðarlega mikið magn upplýsinga en það sem er kannski einfaldast eru hitaeiningarnar sem fara upp á vegginn líka.

Þetta fyrirtæki sem ég ætla að leyfa mér að gefa prik úr ræðustól Alþingis fyrir að hafa drifið í þessu — og hugsanlega eru fleiri fyrirtæki að gera þetta, einhver fyrirtæki eru hugsanlega búin að þessu. Einhver nefndi Subway í mín eyru, ég hef bara ekki skoðað það sérstaklega. En þetta fyrirtæki mun líka, af því að nú sjá þau tölurnar á bak við bitana, reyna að lækka tölurnar á hitaeiningainnihaldi á ákveðnum vörum, taka út majonessósu og setja inn jógúrtsósu, sem lækkar hitaeiningainnihaldið og er líka hollari, meira kalk og næringarefnaríkari. Þau taka út ostsneiðar, taka út beikon o.s.frv. til að lækka hitaeiningainnihaldið og bjóða auk þess upp á rétti sem eru hitaeiningasnauðir, salat og ýmislegt annað. Mér finnst þetta gríðarlega spennandi og sérstaklega skemmtilegt að verða vitni að þessu í dag þegar svo skemmtilega vill til að við erum að mæla fyrir þessu máli í fyrsta sinn á Íslandi.

Ég vona að fleiri staðir skelli sér í þetta og að við samþykkjum þetta mál þannig að stjórnvöld geti haldið svolítið utan um þetta og hvatt staðina áfram. Það væri gaman ef þetta yrði gert á þokkalega samræmdan hátt á öllum skyndibitastöðunum þannig að þegar almenningur velur sér skyndibita þá viti hann hvaða hitaeiningainnihald er á bak við hann. Fólk getur þá valið miðað við það að inntaka kvenna er um 2.000 hitaeiningar á dag, karla 2.500–2.700, geti þá ákveðið hvaðan það vill fá þessar hitaeiningar. Vil ég fá þær úr þremur hamborgurum eða einhverju fjölbreyttara mataræði. Það er sóknarfæri fyrir skyndibitastaðina að gera þetta og mjög jákvætt fyrir íslenska neytendur að sem flestir staðir taki upp hitaeiningamerkingar á vörum sínum.