140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

St. Jósefsspítali.

[10:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir ári ræddum við hér í tengslum við fjárlög 40% niðurskurð til St. Jósefsspítala vegna sameiningar St. Jósefsspítala og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég sagði þá að ég mundi ekki setja mig upp á móti slíkum áformum ef gætt væri að öryggi starfsfólks, passað upp á að þekkingar- og þjónustustig yrði varðveitt og rannsóknirnar sem hafa verið magnaðar innan St. Jósefsspítala. Síðast en ekki síst lagði ég áherslu á að sérstaklega yrði sýnt fram á raunverulega hagkvæmni af því að sameina þessar stofnanir.

Síðan lofaði ráðherra, og fólk treysti á það, að legudeild almennra lyflækninga yrði áfram á St. Jósefsspítala. Ekkert af þessu hefur staðist. Menn hafa ekki einu sinni sýnt fram á þessa miklu hagkvæmni af því að sameina spítalana fyrir utan það að ekki er búið að tryggja að þeirri miklu rannsóknarþekkingu sem hefur byggst upp á spítalanum í áratugi verði viðhaldið. Mér finnst sá ráðherra sem nú hefur völdin ekki hafa sýnt hinni merku sögu þessa merka spítala mikla virðingu. Hann lofaði því að áfram yrði legudeild á spítalanum. Nú hafa ljósin verið slökkt þar. Gott og vel, ef hægt er að sýna fram á hagkvæmnina er erfitt að segja nei. En það er búið að slökkva ljósin á St. Jósefsspítala, það er engin starfsemi þar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst hann sýna fram á það að með þessu brölti sínu hafi hann styrkt og eflt sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu? Af hverju sveik hæstv. ráðherra það sem hann lofaði? Ætlar hann að svíkja fleiri loforð í þessa veru eða ætlar hann bara að svíkja loforð sem tengjast Hafnarfirði?