140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er þörf og það er gott að við getum skipst á skoðunum um það mikilsverða málefni sem niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum er.

Það sem helst ber að gagnrýna varðandi það vinnulag sem viðhaft hefur verið varðandi niðurskurð í heilbrigðismálunum er að við virðumst ekki hafa lært af reynslunni frá því í fyrra, því miður. Ég hafði miklar væntingar um að við hefðum öll lært mjög mikið af þeim miklu mótmælum sem heyrðust víða um land, sem birtist m.a. í því að landsbyggðarmenn fjölmenntu til höfuðborgarsvæðisins til þess að mótmæla niðurskurði. Ég hélt að við hefðum lært það að nauðsynlegt væri að hafa samráð. Þess vegna kom það mér mjög á óvart að sjá að sú væri ekki raunin og þá vísa ég sérstaklega í dæmi eins og Sogn og St. Jósefsspítala.

Það hryggir mig að sjá þessi dæmi vegna þess að fullyrt var fyrir ári síðan að það yrði ekki verklagið á þessu ári. Það er réttmæt gagnrýni sem beina þarf til ráðherra að það er sérkennilegt að sjá ekki ráðherrann sjálfan kynna þessar ákvarðanir og standa augliti til auglitis við þá sem málið varðar. Ég heyri að ráðherrann segir að hann ætli ekki að taka upp þá aðferðafræði framsóknarmanna og sjálfstæðismanna að vera sjálfur með öll verkefnin.

Auðvitað erum við ekki að tala um það. Við erum einfaldlega að tala um að yfirmaðurinn, sá sem er á hæstu laununum og ber ábyrgðina, standi í stafni þegar erfiðar ákvarðanir eru teknar en láti það ekki undirmönnum sínum eftir. Við vitum öll að þetta eru erfið og viðkvæm málefni og ráðherranum ber að standa þar sjálfur í stafni.

Varðandi landbúnaðinn vil ég minna á að búvörusamningunum var breytt, sett var þak á vísitölubindingu búvörusamninganna þannig að ekki er hægt að halda því fram (Forseti hringir.) að ekki hafi farið fram neinn niðurskurður í landbúnaðarkerfinu, að það hafi ekki verið neinn vilji til þess. Ég fullyrði að bændur eru ekki ofsælir af launum sínum.