140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarmálum.

[11:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Hæstv. velferðarráðherra segist aldrei hafa heyrt þessa umræðu áður frá þeim sem hér stendur. Honum er kannski ekki kunnugt um að þetta var það sem rætt var í fjárlaganefnd allt síðasta haust og studdi ég ekki fjárlögin m.a. vegna þessa. Honum er kannski heldur ekki kunnugt um að lögð var fram tillaga í fjárlaganefnd á síðasta ári einmitt áhrif um niðurskurðarins á landsbyggðinni, byggðaúttekt. Það væri kannski fróðlegt fyrir hæstv. ráðherra að skoða hvers vegna niðurstöður þeirrar úttektar liggja ekki fyrir.

Niðurstöður þeirrar úttektar liggja ekki fyrir vegna þess að ráðuneyti hæstv. velferðarráðherra hefur ekki enn skilað gögnum til Byggðastofnunar nú ári síðar þannig að hægt sé að vinna þá úttekt. Samt sem áður er ráðist með sama hætti að velferðarþjónustunni og gert var fyrir ári síðan áður en sú úttekt liggur fyrir.

Hæstv. ráðherra segir að engir fólksflutningar fari fram milli héraða eða landshorna á milli. Það ber vott um lítil tengsl við raunveruleikann. Við heyrum í fólki, starfsfólki, öldruðum og sjúkum, alls staðar á landinu sem upplifa það einmitt að þurfa að fara landshorna á milli til að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Frú forseti. Hæstv. velferðarráðherra segir að hann ætli ekki að handstýra hlutunum. Hann er einmitt að handstýra hlutunum með því að færa alla heilbrigðisþjónustuna burt úr mörgum byggðarlögum á landsbyggðinni. Ég hvet hann til þess að handstýra þeim í aðra átt. Við skulum handstýra í þá átt að verja velferðina og skera niður lúxusinn í samfélaginu. Handstýrum í þágu velferðar.