140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

fjármálafyrirtæki.

104. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Á mánudag mælti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir máli 104 á þskj. 104 er varðar fjármálafyrirtæki og varnarþing. Það er tengt því efnahagshruni sem hér varð að því leyti að það lýtur að varnarþingi í þeim málum sem snúa að riftun ráðstafana og ágreiningi um riftun ráðstafana á vegum þrotabúa gömlu bankanna. Almennt er sá frestur sex mánuðir en Alþingi hefur áður rýmkað þann frest í 24 mánuði í tilfelli hinna föllnu banka í ljósi þess að um er að ræða svo gríðarlega umfangsmikil gjaldþrot, nokkur þau stærstu í sögu veraldarinnar, að hinn almenni fyrningarfrestur í þessum málum, sex mánuðir, hefur ekki þótt eiga við og hafa verið málefnaleg sjónarmið um að lengri tíma þurfi í þessum búum en búum venjulegra íslenskra fyrirtækja til þess að vinna úr málum.

Hér er gert ráð fyrir því að sá frestur verði lengdur um sex mánuði enn. Höfum við við umfjöllun málsins í efnahags- og viðskiptanefnd gengið eftir því að sú framlenging eigi að vera seinni framlengingin og að ekki eigi að vera þörf á því að koma aftur til að sækja um frekari framlengingu. Ástæða þess að eftir því er sótt lýtur að varnarþingi og nauðsyn þess að varnarþing í þeim málum sem varða ágreining um riftun ráðstafana fari að íslenskum lögum þannig að þeir sem í hlut eiga sitji við sama borð og að um þá gildi sama réttarfar hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem verður að telja eðlilegt út frá sjónarmiðum um jafnræði, og sömuleiðis að það sé í anda tilskipunar 2001/24/EB.

Það er nokkuð tímafrekt ferli að sækja slík mál á erlendri grund. Það er meginástæðan fyrir því að fresturinn er lengdur um sex mánuði, sömuleiðis sá tími sem tapast hefur við úrvinnslu málanna vegna þeirrar óvissu sem reis eftir dóm Hæstaréttar í sumar. Því féllst meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar á tillögur frumvarpsins. Öll nefndin var sammála þeim þáttum sem lúta að varnarþinginu og allir fulltrúar í nefndinni nema tveir voru sammála um framlengingu um sex mánuði. En ég undirstrika að ekki á að þurfa að koma til frekari framlengingar á þessu, slitastjórnir og skilanefndir verða einfaldlega að ljúka úrvinnslu þessara mála innan þessa frests.

Auk mín standa að nefndaráliti því sem ég hef reifað og er að finna á þskj. 157, þau hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þráinn Bertelsson, Birkir Jón Jónsson og Lilja Mósesdóttir.