140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir framlagningu þessa máls og að við fáum tækifæri til að ræða um leiðréttingar á lánum og að draga úr vægi verðtryggingarinnar.

Ég vildi benda á að ég tel að það séu fordæmi fyrir því í sögu verðtryggingar á Íslandi að gera framtíðarbreytingar á vísitölunni, við getum sagt að það hafi verið gert a.m.k. þrisvar sinnum. Því má líka halda fram að sú tillaga sem kom í framhaldi af hruninu um greiðslujöfnunarvístöluna sé ákveðin útgáfa af þeirri breytingu. Það er því mikilvægt að við hættum að tala um afturvirkar breytingar og förum að ræða það að við getum framvirkar breytingar á því hvernig við reiknum út vísitöluna.

Ég tel líka mjög mikilvægt, af því að við erum að ræða um raunvexti og hvernig við getum náð niður raunvöxtum á lánum í landinu, að við horfumst í augu við það að við þurfum að fara í heildarendurskoðun á lífeyrissjóðakerfinu. Sett var ákveðin reglugerð um svokallaða ávöxtunarkröfu hjá lífeyrissjóðunum og flestir virðast vera farnir að horfast í augu við það að sú ávöxtunarkrafa myndar ákveðið gólf hvað varðar vexti. Þetta er eitthvað sem virkilega þarf að skoða og í leiðinni þarf líka horfa til þess að við þurfum að ná ákveðnu jafnvægi á milli skuldara og fjármagnseigenda til að tryggja að þar verði ákveðið réttlæti og sanngirni. Því er mikilvægt að svona mál komi inn í þingið til að við getum tekið umræðu um þau í stað þess að við ýtum þessu einhvern veginn til hliðar og lesum aðeins um þetta í blöðunum en ræðum ekki þær stóru kerfisbreytingar sem þarf að fara í á vegum Alþingis. Við erum að tala um lánakerfið, lífeyrissjóðakerfið og raunar framtíð íslensku þjóðarinnar.