140. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:37]
Horfa

Flm. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil taka undir mikilvægi þess að sú vinna sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur boðað fari sem fyrst af stað og við fáum réttar tölur, en það þarf að leggja upp í þann leiðangur þannig að það skapist traust. Ég held að fulltrúar almennings og lánþega þurfi að eiga jafnmarga fulltrúa og fjármálafyrirtækin. Ég held að það sé lágmarkskrafa því að annars mun fólk og við sjálfsagt líka vefengja þær tölur eins og aðrar sem við höfum fengið sem sífellt stangast á.

Hvað varðar vísitöluna þá tel ég að ef við ætlum að vera með verðtryggingu þurfi vísitalan að vera í stöðugri þróun. Verðtryggingin þarf líka að vera víðar, við þurfum að verðtryggja launin líka því að annars myndast þetta misvægi sem ég held að sé afskaplega óheilbrigt og gangi hreint ekki upp. En best af öllu er, held ég, að leggja vísitöluna eða verðtrygginguna hreinlega af.