140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[14:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég lít svo á að þessi tillaga okkar sé fyrsta skrefið til afnáms verðtryggingar og til að ná almennu réttlæti í kjölfar hrunsins. Forsenda þess að sátt skapist í samfélaginu er almenn leiðrétting á skuldastöðu heimilanna á jafnræðisgrundvelli. Venjulegir Íslendingar höfðu engar forsendur til að sjá fyrir það efnahagslega stórviðri sem gekk yfir landið, auk þess höfðu margir fylgt ráðgjöf fjármálafyrirtækja sem í mörgum tilfellum mæltu með erlendri lántöku. Þá svíður mörgum að sjá skuldir svokallaðra útrásarvíkinga og forkólfa í atvinnulífinu afskrifaðar á meðan lán heimilanna standa ósnert. Réttlæti fæst ekki fyrr en forsendubresturinn hefur verið leiðréttur. Þannig verður fjöldagjaldþrotum afstýrt. Flest heimili munu geta spjarað sig. Almenn neysla eykst og með henni fara hjól atvinnulífsins vonandi að snúast.

Þingheimur, og sér í lagi þeir stjórnarliðar sem hafa barist við ægistórar vindmyllur verðtryggingar um langt árabil, hlýtur að fylkja sér á bak við þessa tillögu eða leggja fram sambærilega tillögu til að hefja nauðsynlegar úrbætur á mismunun þeirri sem nú er við lýði, til dæmis vegna 110%-leiðarinnar. Það kom fram í fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í morgun, frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að ekki sé byrjað að finna leiðir til að koma til móts við þá sem 110%-leiðin gagnast ekki. Ég vil því hvetja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til að styðjast við þessa ályktun og stytta sér þá tímann og leiðina að þessu, hann má svo sannarlega gera þessa tillögu að sinni ef það flýtir fyrir því að fólk fái réttlæti.

Það eru mjög margir í mjög erfiðum kringumstæðum einmitt núna. Það er hörmulegt að vera í þeirri stöðu, eins og mjög margt af því unga fólki sem tók lán, að vera með uppáskrift frá ættmennum, að vera í þeirri stöðu að skuldir sem það ræður ekki við, út af því að ekkert hefur verið komið til móts við það, verði jafnvel til þess að foreldrar þess missi húsnæðið sitt. Þetta er náttúrlega ekki hægt. Það er ekki hægt að senda þau skilaboð út í samfélagið að þeir sem sýndu ráðdeild í aðdraganda hrunsins fái enga aðstoð. Mér finnst að við þurfum öll að taka höndum saman um að leiðrétta þetta. Þetta er ákveðið skref til þess. Ef stjórnarmenn vilja frekar koma með sínar eigin tillögur geta þeir kannski bara byggt á þeirri vinnu sem lögð hefur verið í þessar tillögur.

Mér finnst gríðarlega mikilvægt að við förum að vinna saman hér á þinginu að þessum málum. Mér fannst hálfsorglegt í morgun, í umræðum um ýmis málefni, meðal annars um fjárlög, að það er eins og engir geti verið á sömu blaðsíðunni, það er alltaf farið í þessi hjólför. Við verðum einhvern veginn að koma okkur upp úr þessu. Mér finnst til dæmis mjög sorglegt að hér erum við að ræða um tillögu til þingsályktunar um leiðréttingu á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar. Það eru engir þingmenn hér inni nema þingmenn Hreyfingarinnar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hv. þm. Pétur H. Blöndal, en hann er reyndar með mál strax á dagskrá á eftir okkar. Mér finnst það ekki bera vott um mikinn áhuga á samvinnu þegar þingmenn hunsa algjörlega tillögur frá öðrum flokkum.