140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er viðbúið að þegar breyta á allri stjórnarskránni eins og stendur til verður enginn ánægður með öll ákvæðin. Hins vegar hygg ég að flestir þingmenn, þegar búið er að setja upp allan pakkann upp, öll lögin, geti sagt: Jú, ég er ekki sáttur við þetta, en ég er mjög sáttur við hitt. Með því að vega meiri hagsmuni á móti minni gætu menn hér á þingi sagt já við því og greitt atkvæði með allri stjórnarskránni þó að þeir séu ósáttir við einstök atriði og láti þar í minni pokann. Það gæti orðið þannig að 2/3 þingmanna í heildina greiddu þessu atkvæði. Nákvæmlega sama gerist úti í þjóðfélaginu.

Við Íslendingar höfum búið við það, sem betur fer, að mikill áhugi er á kosningum. Á Íslandi er óvenju mikil kosningaþátttaka, 75–80% er ekki sjaldgæft. Það eru því ekki of miklar væntingar að gera kröfu til þess að 60% greiði atkvæði. En ég reikna með því að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem ég gleymdi nú áðan að segja, herra forseti, að vísa ætti málinu til, ég geri ráð fyrir að hún muni fara í gegnum þetta og vega og meta mjög nákvæmlega hvort þetta eigi að vera 6/10 í þjóðaratkvæðagreiðslu eða 5/10, þ.e. helmingur eða einhver önnur mörk. Nefndin þarf að ræða það mjög ítarlega og í hörgul því þessi tillaga snýst eiginlega um þetta, hversu háir þröskuldarnir eiga að vera, t.d. eins og 2/3 þingmenn á Alþingi. Menn hafa eflaust mjög mismunandi skoðanir á þessu og ég er alveg tilbúinn til að fallast á önnur rök ef nefndin breytti þessu t.d. í einhverja aðra prósentu.