140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

28. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað. Ásamt mér er hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir flutningsmaður.

Með frumvarpinu er einfaldlega lagt til að kjararáð ákveði öll laun og starfskjör þingmanna í samræmi við 1. mgr. 1. gr. laganna um kjararáð sem eru nr. 47/2006. Þar stendur að kjararáð ákveði laun og starfskjör þjóðkjörinna manna og ýmissa annarra eins og menn vita, en í lögum eru núna laun þingmanna ákveðin með kjaradómi og jafnframt er í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað tiltekið að greiða skuli sérstakt álag forsætisnefndarmönnum, þingflokksformönnum, formönnum nefnda og formönnum stjórnmálaflokka utan ríkisstjórnar. Þar er líka tiltekin heimild til frekari greiðslna.

Við leggjum til að kjararáði sé falið að íhuga það ef ráðinu sýnist að fyrir þessu sé réttlæting en greiðslan megi þó ekki nema meira en 15% af þingfararkaupi til þess þingmanns sem hana fær og sé þá aðeins einföld í staðinn fyrir að nú er hægt að fá þessa greiðslu tvöfalda.

Með samþykkt þessa frumvarps yrðu launamál þingmanna að fullu úr þeirra höndum og það yrði þá sérstök ákvörðun kjararáðs hvort álagsgreiðslur ættu að koma við sögu og þá fyrir hvaða störf, í staðinn fyrir að núna ráða þingmenn þessu í sérstökum lögum en vilja að grunnlaunin séu ákveðin annars staðar, ekki á Alþingi eins og hér var lengi heldur í kjararáði.

Í hliðstæðu frumvarpi sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fluttum í fyrra var lagt til að hluta þessara sérstöku álagsgreiðslna yrði beinlínis hætt. Störf alþingismanna yrðu þannig lögð að jöfnu hvað varðar þingfararkaup, hvar og hvernig sem þau eru unnin í samræmi við það sem við teljum vera meginreglur lýðræðisskipunar. Rök að baki þessum álagsgreiðslum hafa verið nefnd þau að þar sé um að ræða þóknun fyrir þingstörf sem fylgi sérstakt álag. Í fyrra sögðum við flutningsmenn að formennska í þingnefnd og þingflokki væri vissulega ábyrgðarmikið starf — og teljum það enn á þessu ári — og annasamt en ekki yrði annað séð en að jafnframt skyldum og ábyrgð og álagi fælust einnig í slíku starfi einmitt þau áhrif og völd sem flestir alþingismenn sækjast eftir fyrir sína hönd en þó einkum, skyldi maður ætla, fyrir hönd kjósenda sinna og málstaðar. Það væri þess vegna ekkert líklegt að ásókn minnkaði í þessi tilteknu störf innan þingsins þótt álagsgreiðslunum linnti.

Viðbrögð við þessu frumvarpi voru nokkuð misjöfn innan þingsins og það verður að segja þá sögu eins og hún var, að sumum þótti höggvið nærri störfum sínum og jafnvel heiðri sem var þó ekki vísvitandi í voða stefnt af hálfu flutningsmanna. Eftir 1. umr. var málinu vísað til allsherjarnefndar. Þar þótti ekki ástæða til að leita mikilla álitsgerða um þetta mál — ég sat í nefndinni og var í sjálfu sér sammála því — þar sem reynsla og þekking væri næg innan dyra í nefndinni og á þinginu. Þó var meðal annars leitað álits kjararáðs og þaðan barst álit, að vísu ekki frá kjararáði heldur einstökum kjararáðsmönnum, þremur af fimm. Þar kom fram sú skoðun Rannveigar Sigurðardóttur, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar og Guðrúnar Zoëga sem þá sátu í kjararáði og gera held ég tvö þeirra enn þá, með leyfi forseta, „að heppilegra sé að ákvörðun um laun þingmanna sé tekin af einum aðila, annaðhvort af þinginu sjálfu eða af óháðum úrskurðaraðila, svo sem kjararáði“.

Ráðlegging þessara þriggja kjararáðsmanna er að menn eigi að gera þetta annaðhvort sjálfir allt saman eða láta kjararáð um það allt saman. Ég er sammála kjararáðsmönnum að þessu leyti.

Allsherjarnefnd óskaði líka sérstakrar umsagnar frá þingskapanefnd sem þá var að störfum og fjallaði um þingskapafrumvarp sem nú er orðið að lögum og við störfum eftir. Í áliti þingskapanefndar sem hún gaf um vorið, 19. maí 2001, kemur annars vegar fram að nefndarmenn telja að víðtæk samstaða hafi verið meðal þingmanna um þessar álagsgreiðslur til formanna nefnda og þingflokka. Skoðun þeirra er að sú víðtæka samstaða sé fyrir hendi. Hvort það myndar svo sérstök rök fyrir því að þessu sé haldið áfram er önnur saga en svona er þetta.

Í öðru lagi sögðu þingskapanefndarmenn, með leyfi forseta, að það væri „í höndum kjararáðs að úrskurða um laun þingmanna og ráðherra“. Nefndinni virðist hafa yfirsést við álitsgerð sína að þessar álagsgreiðslur eru einmitt ákvarðaðar með lögum á Alþingi, þeim sem frumvarpið gekk út á að breyta og þetta frumvarp gerir líka.

Á hinn bóginn má hæglega líta á þessa athugasemd sem viljayfirlýsingu þingskapanefndar um að kjararáð annist þetta verk, og er rétt að líta svo til, því að þingskapanefndin segir annars vegar að kjararáð eigi að sjá um launin og hins vegar að það sé skoðun hennar að álagsgreiðslunum eigi að halda áfram. Það má álykta sem svo að þingskapanefndin vilji að kjararáð annist það. Ég er því ekki sammála en við flutningsmenn erum reiðubúin til þeirrar málamiðlunar að þetta verði sett í hendurnar á kjararáði sem sjái um þetta allt saman. Það er innihald þessa frumvarps.

Þingskapanefndin bætti því síðan við í áliti sínu að málið væri í vinnslu í nefndinni og það væri rétt að bíða þess að hún lyki störfum. Þessi setning í álitinu var eitt af því sem varð meðal annars til þess að allsherjarnefnd afgreiddi ekki málið frá sér þar sem þingskapanefnd hafði ekki lokið störfum. Þingskapanefnd lauk síðan störfum í fyrravor og breytingartillögur nefndarinnar á þessu sviði voru ekki alveg í samræmi við þetta álit því að kjararáði var ekki blandað í málið en nefndin lagði til að þessum álagsgreiðslum yrði breytt með þeim hætti að 1. varaformaður fastanefndar fengi 10% álag en 2. varaformaður 5% álag. Þetta var samþykkt hér í þinginu. Að vísu er ekki alveg víst að allir þingmenn hafi áttað sig á því hvað þeir voru að samþykkja og einn af varaforsetum þingsins sagði í fréttaviðtali í haust að hún teldi að þingmenn hefðu ekki vitað alveg hvað þeir voru að samþykkja. Þetta var síðasta greinin í nokkuð löngu frumvarpi.

Sú breyting leiddi það af sér að eins og málum er nú háttað geta 38 þingmenn af þeim 52 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum notið álagsgreiðslna miðað við að hver þingmaður sinni þá aðeins einu álagsverðu starfi, það eru 24 formenn og varaformenn fastanefnda, fimm formenn þingflokka, sex forsætisnefndarmenn og þrír formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu eins og staðan er nú. Miðað við þetta dæmi eru 14 þingmenn sem ekki fá álagsgreiðslur þannig að breytingin er þá orðin sú að ekki er lengur um að ræða það sem sumir kalla elítu á þinginu, sérlega hálaunaða þingmenn heldur eiginlega það sem mætti á sama alþjóðamáli kalla paríu, þá 14 aumingja hér á þinginu sem ekkert fá í sinn hlut.

Fyrir árið 1995 voru laun þingmanna jöfn eins og við flutningsmenn teljum að þau eigi að vera, nema forseti fékk hærri laun sem ég tel ekki óeðlilegt. Í frumvarpi sem þá var flutt, Geir Haarde var 1. flutningsmaður en hópur þingflokksformanna flutti það frumvarp, var gert ráð fyrir því að varaforsetar fengju 15% álag á sín störf. Því frumvarpi var breytt í meðförum þingsins, þó án mikillar umræðu úr ræðustóli, þannig að bætt var við þingflokksformönnum og nefndarformönnum. Það var breyting númer tvö.

Þriðja breytingin var svo sú árið 2005 að 50% álagi var bætt við laun formanna stjórnarandstöðuflokka.

Fjórða breytingin er svo sú sem hér varð í vor og ekki alveg ljóst hvort þingmenn vissu að þeir voru að gera, að bætt var við 10% álagi á 1. varaformenn og 5% á þá sem gegna stöðu 2. varaformanns, (BirgJ: Varavara…) varavaraformanns. Þakka þér fyrir, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.

Þá er staðan orðin þannig í launamálum þingmanna sem áttu upphaflega að vera jafnir í launum nema sá sem fyrir okkur fer, forseti Alþingis sem er einhver æðsta heiðursstaða í íslensku samfélagi, að við erum í átta launaflokkum. Fyrst eru ráðherrarnir, síðan er forseti sem er þeim nokkuð jafn og þeir eru allir með ráðherralaun. Síðan koma formenn stjórnarandstöðuflokka með 150% laun. Síðan koma formenn nefnda (Gripið fram í.) og þingflokka með 115% laun og forsætisnefndarmenn með 115% laun. Sumir þeirra eru með tvöfalt álag og eru þess vegna með 130% laun. Svo koma 1. varaformenn með 110% laun og næstneðstir eru 2. varaformenn með 105% laun. Síðan koma aumingjarnir 14, parían í þinginu, með aðeins 100% laun. Þetta er, forseti, í einu orði algjörlega út í hött, fáránlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Við flutningsmenn teljum að launin eigi að vera jöfn. Það er önnur sýn af tveimur á launamálin á Alþingi. Við teljum að hversu vel sem mönnum hefur gengið í kosningum séu menn hér komnir á jafnréttisgrunni, séu fulltrúar kjósenda sinna, allrar þjóðarinnar í sjálfu sér, málstaðar síns, liðsmenn Íslendinga, og eigi þess vegna að umgangast hér á jafnréttisgrundvelli, líka hvað launamálin snertir.

Önnur sýn er auðvitað sú, og hana virði ég fullkomlega, að hér eigi hlutirnir að vera eins og víða í samfélaginu, að laun manna fari eftir álaginu, mannaforráðum, tímalengd, dugnaði, menntun, eftir hæfileikum með einhverjum hætti og þá spyr maður: Eru einu forsendurnar þær hvort menn eru einhvers staðar formenn eða varaformenn? Er ekki til dæmis eðlilegt að 1. þingmaður í kjördæmi fái þá eitthvert álag? Er ekki eðlilegt að forustumaður stjórnarandstöðuflokks í nefnd fái álag? Er ekki eðlilegt að þeir sem mæta best á nefndarfundi, af því að nú er verið að tiltaka það og skrá sérstaklega, ástæður, mætingu og nákvæmar mínútur, fái sérstakan bónus fyrir að hafa mætt vel á nefndarfundi? Eða kannski að taka upp annan bónus sem væri þá annaðhvort að menn fengju sérstakan bónus fyrir að tala mikið hér í ræðustólnum, nú eða þá kannski á hinn bóginn fyrir að hlífa almenningi og öðrum þingmönnum við að tala hér í ræðustólnum?

Þetta má teygja og toga endalaust og í raun út í það fáránlega og samt er engin skipan að mér virðist annarri betri eða fullkomlega réttlát í þessu. Ég held mig því við mína skoðun í þessu, þingmenn eiga, e.t.v. að undanteknum forsetanum, að hafa hér jafna stöðu. Ég er hins vegar ekki að biðja þingheim að taka undir þessa skoðun, heldur einungis að fara fram á ásamt meðflutningsmanni mínum að kjararáð verði sett í þessa erfiðu stöðu í staðinn fyrir að þingheimur ákvarði þetta.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta í bili en legg að lokum til að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar en á hennar sviði eru málefni kjararáðs sem myndar meginuppistöðuna í þessu frumvarpi.