140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

40. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið mæli ég fyrir frumvarpi því sem hér er á dagskrá um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Þann 25. júní sl. voru í fyrsta sinn samþykkt lög á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslur, rammalöggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur. Lögin lúta bæði að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem boðað er til samkvæmt þingsályktunartillögu frá Alþingi og bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem fara m.a. fram þegar forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég var í starfshópi sem vann að þessu frumvarpi á sínum tíma og í dag hafa þegar farið fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og þá er ég að sjálfsögðu, frú forseti, að vísa í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslurnar sem báðar voru bindandi.

Í nefndum eru nú þegar beiðnir um þjóðaratkvæðagreiðslur eða réttara sagt voru á síðasta þingi. Ég er t.d. flutningsmaður eins málsins sem snýr að því hvort senda eigi ESB-aðlögunarferlið tafarlaust í þjóðaratkvæðagreiðslu svo að landsmenn geti sagt álit sitt á því hvort stoppa eigi viðræðurnar eða halda þeim áfram. Að vísu er sú tillaga ekki komin á dagskrá þingsins en ég hef lagt hana fram á nýju þingi og mun því endurflytja hana.

Frumvarpið til umræðu endurflyt ég nú, ég lagði það fram á síðasta þingi, 139. löggjafarþingi, en það fékkst ekki fullrætt. Efni frumvarpsins snýr að því að þegar gluggað er í lög um þjóðaratkvæðagreiðslur er á þeim einn hængur, að mínu mati. Ég legg frumvarpið fram til breytingar á 4. gr. en hún gengur út á að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Í 2. mgr. 4. gr. segir að þegar forseti synjar lagafrumvarpi staðfestingar skuli þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram innan tveggja mánaða eftir að krafa Alþingis var samþykkt, þannig að þarna er mikið misræmi á milli.

Þegar boðað var til stjórnlagaþingskosninga í fyrra og það ferli fór af stað, kosningar sem síðar voru ógiltar af Hæstarétti, þá lagði ég til að þjóðaratkvæðagreiðsla um þingsályktunartillöguna um hvort stoppa ætti ESB-aðlögunarferlið færi fram samhliða þeirri kosningu. Allir sjá að það er mikill sparnaður sem felst í því að geta kosið jafnframt um ákveðið málefni í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar boðað hefur verið til almennra kosninga í landinu, enda er fjallað um það í frumvarpinu að samhæfa eigi þjóðaratkvæðagreiðslur við sveitarstjórnarkosningar, alþingiskosningar og forsetakosningar. Þarna var komin upp ný staða þar sem búið var að ákveða að boða til stjórnlagaþingskosninga. Þá rek ég mig á það, þegar tillagan kemur fram og ég vildi fá hana rædda á þinginu, að það hefði verið of skammur tími til að hún kæmist í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ákvæðisins í 1. mgr. 4. gr. laganna um þriggja mánaða tímamörk. Eins og ég fór yfir áðan skal slík þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga er samþykkt á Alþingi.

Það er mjög bagalegt að þetta sé svona því að þegar Alþingi starfar getur alltaf komið tillaga fram um að vísa einhverju máli í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá er mjög mikilvægt, ef kosningar eru í nánd, að þetta þriggja mánaða tímamark sé stytt.

Þess vegna hljóðar 1. gr. frumvarpsins sem ég mæli hér fyrir svo, með leyfi forseta:

„Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. ef almennar kosningar eru boðaðar innan þriggja mánaða frá samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það er mjög nauðsynlegt að þetta tímamark verði fært inn í lögin. Sumir gagnrýnendur á frumvarpið hafa sagt að þriggja mánaða tímabil þurfi til að málið fái nægilega kynningu í þjóðfélaginu. Ég svara þeim rökum með því að þegar forseti synjar lögum staðfestingar skal, samkvæmt 2. mgr. 4. gr., þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram innan tveggja mánaða frá því að Alþingi samþykkti lögin. Þau rök að þrjá mánuði þurfi til að kynna ákveðið mál halda því ekki, að mínu mati, sérstaklega í ljósi 2. mgr. 4. gr.

Það er líka þannig að einungis umdeild mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Umdeild mál eru að sjálfsögðu mikið rædd í samfélaginu, mikið rædd í fjölmiðlum, og fólk er mjög upplýst um þau mál og skiptist gjarnan í tvo hópa, já- og nei-hópa, þannig að ég tel að ekki þurfi þrjá mánuði til að kynna mál, ég tel að við Íslendingar séum það vel upplýstir að við getum tekið ákvörðun á styttri tíma en það. Enda kom það í ljós í seinni Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni, að frá því að ákveðið var að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu liðu tíu dagar þar til hún fór fram. Kynningarefni var útbúið og það sent á heimili landsins og síðan fór þjóðaratkvæðagreiðslan fram vandkvæðalaust. Ég trúi á íslenska þjóð og Íslendinga alla og þá upplýsingatækni sem við höfum í landinu þannig að það er mjög raunhæft að gera þetta.

Mig langar, frú forseti, að lesa greinargerðina, hún er ekki svo löng og varpar örlítið betra ljósi á það sem ég hef verið að fara yfir. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í 4. gr. laganna er kveðið almennt á um innan hvaða tímaramma halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslur. Í 1. mgr. kemur fram að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að samþykkt hefur verið þingsályktunartillaga um að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Í frumvarpi þessu er lagt til að undantekning verði gerð á þriggja mánaða tímamarkinu á þeim grunni að ef um kosningar sé að ræða innan þess tímaramma megi þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram samhliða kosningunum þó að styttri tími sé í þær en þrír mánuðir. Er þetta m.a. gert til að spara ríkinu kostnað við kosningar. Áætlað er að þjóðaratkvæðagreiðslur kosti um 250 millj. kr. Ábatinn er því augljós.“

Við getum séð fyrir okkur að búið sé að boða til forsetakosninga, þær verða samkvæmt lögum 2012, og þá er mjög mikilvægt að ef hingað kemur eitthvert mál, eins og t.d. tillagan sem ég fór yfir um ESB-málið, sjái ríkisstjórnin sér ekki fært að afgreiða það út úr þinginu og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu einnar og sér, væri hægt að renna þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu saman við forsetakosningarnar þó að ekki væri um að ræða þriggja mánaða bið frá því að tillagan hefði verið samþykkt á Alþingi.

Í greinargerðinni er ég með rökstuðning fyrir þessum skamma tíma og nefni til sögunnar Icesave-kosninguna þar sem tíu dagar liðu frá ákvörðun, og heppnaðist atkvæðagreiðslan mjög vel og kjörsóknin var með eindæmum góð þó að tíminn væri stuttur enda var um mjög umdeilt mál að ræða á sínum tíma.

Svo stendur hér í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Flutningsmaður telur brýnt að hægt sé að bregðast skjótt við komi fram tillaga á Alþingi um mál sem skjóta á til þjóðarinnar. Þriggja mánaða bið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er of langur tími þegar bera þarf stór ágreiningsmál undir þjóðina. Stjórnkerfið þarf að vera sveigjanlegt og bregðast hratt við slíkum málskotum Alþingis, sér í lagi sé það fyrirséð að samnýta megi kosningadag öðrum kosningum sem þegar hafa verið boðaðar með meiri fyrirvara.“

Ég er eini flutningsmaður þessa máls, legg það hér fram og vonast eftir því að það fari í rétta nefnd — ætli það sé ekki, frú forseti, hv. allsherjar- og menntamálanefnd — og fái þar efnislega umræðu og fari til umsagnar til réttra aðila. Ég vonast svo eftir að fá að sjá frumvarpið við 2. umr. í þinginu mjög fljótlega