140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stimpilgjald.

44. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta var fyrst flutt á 136. löggjafarþingi af hv. þingmönnum Jóni Magnússyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni. Með því er lagt til að skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út vegna kaupa á íbúðarhúsnæði skuli vera stimpilfrjáls samkvæmt lögum og því ekki greitt stimpilgjald af slíkum skjölum. Einnig er lagt til að kaupsamningar og afsöl sem gefin eru út vegna kaupa á íbúðarhúsnæði skuli vera stimpilfrjáls og því ekki greitt stimpilgjald af þeim skjölum.

Frumvarp þetta er í samræmi við þær efnahagstillögur sem framsóknarmenn kynntu í febrúar 2009. Þetta er líka raunar í samræmi við þær áherslur sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar höfðu í stjórnarsáttmála sínum um að afnema stimpilgjöld í fasteignaviðskiptum þegar aðstæður leyfðu. Ákveðin breyting var gerð á lögum um stimpilgjöld og það frumvarp samþykkt að skuldabréf og tryggingarbréf, sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings, skyldu vera stimpilfrjáls að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Ástæðan fyrir því að við lögðum þetta til, þegar við unnum efnahagstillögur okkar, var fyrst og fremst sú að reyna að koma fasteignamarkaðnum aftur af stað. Segja má að fasteignamarkaðurinn hafi jafnað sig að einhverju leyti, komið kannski aðeins meira jafnvægi en var áður, en ég tel engu að síður jafnbrýnt ef ekki brýnna að þetta verði gert að lögum, þ.e. að gera þessa tegund af skjölum stimpilfrjáls og aflétta stimpilgjöldum af þeim. Það tengist boðaðri löggjöf, annars vegar boðaðri heildarlöggjöf fyrir íbúðalán og hins vegar breytingar hvað varðar lánaframboð hjá Íbúðalánasjóði.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur talað um að hann hafi mikinn áhuga á að taka upp svokallað danskt húsnæðislánakerfi. Lykilþáttur í því kerfi er möguleikinn á því að greiða upp lánin hvenær sem er á lánstímanum. Í því felst jafnvægi á milli annars vegar skuldabréfsins sem fjármagnar lánið og síðan lánsins sjálfs þannig að lántakinn ber þá aukna ábyrgð á að fylgjast með því að hann fái þau kjör sem eru best á hverjum tíma. Danir hafa líka sett upp fyrirkomulag þannig að þú getur verið með algjörlega fasta vexti í ákveðinn tíma og síðan þegar kemur að því að endurskoða vextina hefurðu möguleika á því, ef þú getur aflað þér betri kjara annars staðar, að borga þá upp það lán og þá getur viðkomandi íbúðalánasjóður snúið þessu við og borgað þá upp það skuldabréf sem fjármagnaði lánið, þannig að það er ákveðið jafnvægi þarna á milli.

Þetta þýðir þá líka að fólk er að taka oftar lán. Ég held að það sé mjög brýnt, ef við ætlum að breyta fyrirkomulaginu hér, að við séum ekki að refsa fólki fyrir það að reyna að tryggja þessa samkeppni á markaði og fá sem hagstæðustu kjör og þá virkni sem við sjáum, þau okkar sem höfum kynnt okkur hvernig danski skuldabréfamarkaðurinn virkar, og er mjög mikilvægur þáttur í því að það kerfi gangi almennt vel fyrir sig. Þetta jafnvægi þarf sem sagt að vera á milli annars vegar þeirra sem taka lánin og hins vegar þeirra sem fjármagna lánin, og svo aftur með íbúðalánasjóðina sem ákveðinn milliaðila þar á milli.

Ég tel að frumvarp þetta sé algjörlega í samræmi við þær hugmyndir sem komu fram í meirihlutaáliti verðtryggingarnefndarinnar um upptöku á húsnæðislánakerfi sem væri í samræmi við það sem þekkist í Danmörku og líka þær yfirlýsingar sem hafa komið fram frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og einnig þá þingmálaskrá sem hann hefur nú þegar lagt fram. Og svo, eins og ég minni aftur á, að það hefur verið yfirlýstur vilji frá bæði Sjálfstæðisflokki og Samfylkingunni að aflétta stimpilgjöldum af lánum.

Þetta er mál sem ég vonast til að efnahags- og viðskiptanefnd muni taka vel í og afgreiða og það verður ánægjulegt að sjá þá afstöðu sem nefndin mun taka til málsins.