140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega efnislega í þetta mál. Ég mun eiga kost á því þegar það kemur til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd, enda er þetta frumvarp, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra, nokkurn veginn það sama og var lagt fyrir þingheim á síðasta þingi. Okkur mun því gefast tækifæri til þess að fara yfir þetta og kalla til gesti þegar málið er komið til nefndar.

Nokkur orð vil ég engu að síður segja um þetta mál. Ég segi enn og aftur að það er gott og gilt að menn telji nauðsynlegt að halda þurfi almenningi upplýstum varðandi skaðleg áhrif neyslu áfengis og að sporna þurfi við óhóflegri drykkju á áfengi. Það er ekki spurning um það. Menn segja: Við skulum bara tala um annaðhvort eða. Við vitum alveg hvernig ástandið er í dag. Það er að hluta til verið að fara í kringum málið. Við skulum fara yfir það. Ég held að það muni bjóðast enn frekari tækifæri til þess með þessu frumvarpi. Mín skoðun er sú að svo muni verða. Það kerfi sem er fyrir er svo sem ekkert sérstakt. Það ber að laga og það hafa sjálfstæðismenn allan tímann sagt, en ég tel að með þessari leið séum við að fara leið forræðishyggju sem er vinstri mönnum náttúrlega töm þótt þeim leiðist að heyra það. Þetta er þannig forræðishyggja að menn munu alltaf sjá einhverjar leiðir til að fara í kringum málið sjálft. Mér finnst það miður. Ég tel vera grundvöll fyrir því í þinginu að ná að setja fram skynsamlega, hóflega stefnu í áfengisvarnamálum. Ég held að það væri hægt ef menn legðu sig einfaldlega fram um það. Ég held að það hefði verið mönnum auðvelt ef þeir hefðu leitast eftir því.

Ríkisstjórnin vill kenna sig við norræna velferðarstjórn. Mér finnst frekar miður fyrir aðrar norrænar ríkisstjórnir að þessi ríkisstjórn skuli reyna að kenna sig við þær því að það virðist fátt vera sem þessi ríkisstjórn gerir eins og hinar svokölluðu norrænu velferðarstjórnir, en það er annað mál. Ég hefði gjarnan viljað sjá, og hef verið að rýna bæði í frumvarpið sem liggur hér fyrir og gögnin sem hafa fylgt málinu, hvort við séum að fara nákvæmlega sömu leiðir og aðrar Norðurlandaþjóðir. Ég hefði einmitt gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra, framsögumanns þessa frumvarps, fara yfir það hvort við séum að fara svipaðar leiðir og aðrar Norðurlandaþjóðir í þessum málum.

Ég tel mikilvægt að menn átti sig á því ef litið er á skólakerfið hvað hefur dugað okkur í skólakerfinu. Nú erum við með markvissar rannsóknir og niðurstöður í málefnum ungmenna frá 1991, gerðar reglubundið. Hvað hefur gerst? Alltaf sama umhverfi varðandi áfengisvarnaauglýsingar og meira að segja hefur það frekar orðið eitthvað meira fljótandi á þessum árum. En hvað hefur gerst? Áfengisneysla innan grunnskóla hefur snarminnkað. Hún er eiginlega vart mælanleg lengur. Af hverju hefur það gerst? Það hefur gerst út af forvörnum, ekki bara út af boðum og bönnum heldur út af forvörnum og upplýstri umræðu, en ekki þeirri nálgun sem hér er, að mönnum sé ekki treystandi að halda sig innan skynsamlegra marka. Ég tek alveg undir það að ef menn ætla að hafa lög eiga þeir að hafa þau skýr og menn eiga að fara eftir þeim. Ég held bara að þetta sé ekki leiðin. Það er einfaldlega mín skoðun. Ég held að við eigum að halda markvisst áfram því sem hefur verið gert innan grunnskólans og er núna verið að vinna að, m.a. innan menntamálaráðuneytis, með því að byggja enn frekar upp forvarnir í framhaldsskólum. Þetta er að skila sér. Það tekur tíma en það skilar sér og ég er sannfærð um að það sé mun skynsamlegri leið en þessi.

Ég hef ekki enn heyrt neinar fullgildar röksemdir að mínu mati sem segja manni að það sé í lagi að ganga gegn íslenskum framleiðendum en leyfa hinum erlendu að fljóta hér um. Áfengisneysla verður eftir sem áður til staðar. Sama framboð, nema erlenda framboðið verður bara meira en íslenska af auglýsingum. Er það í lagi? Er þetta kannski anginn af þeirri stefnu sem við munum síðar sjá, áfengisvarnastefnu stjórnvalda, að það sé allt í lagi að neyta áfengis svo lengi sem það sé erlent? Ég hef ekki enn heyrt þá gildu röksemdafærslu sem styður breytingar í þessa veru, enda hafa aðilar innan Samtaka iðnaðarins — munu menn ekki þá segja: Eru þeir ekki bara hagsmunaaðilar? En bæði Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins hafa sérstaklega tekið fram að enginn setji sig á móti því að vernda heilsu almennings gagnvart skaðsemi og áhrifum áfengis. Það segir enginn og enginn berst gegn því. Reynum að hafa þetta skynsamlegt og á hófsömum nótum þannig að allir skilji hvert við erum að fara.

Mér finnst þetta frumvarp einkennast af því að menn haldi að með því að herða allt verði áfengisneysla minni. Ég held að það verði ekki raunin. Ég held að menn muni leita leiða í kringum þetta eins og menn hafa gert varðandi það lagaumhverfi sem er núna. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá það einu sinni af því að þingheimur er nefnilega sammála í miklu fleiri málum en hitt, en það er alveg kostulegt að sjá að ríkisstjórnina nýti ekki þann vilja sem m.a. kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem var greinilega með efasemdir um málið og kom alveg skýrt fram í máli hans að hann teldi að það ætti að berjast gegn aukinni áfengisneyslu. Það er eðlilegt að menn hafi efasemdir í svona málum þegar er verið að fara leið sem er ekkert annað en lok, lok og læs og um leið lokað augunum gagnvart þeim veruleika sem við búum við varðandi fjölmiðlun í landinu.

Þótt landið okkar sé eyland búum við ekki á eylandi í alþjóðlegu samhengi. Við erum með tengingar. Við erum með alþjóðlegar tengingar í gegnum fjölmiðla, samstarf o.s.frv. Og ætla sér að segja að þetta sé bara þannig að við getum ekki komið í veg fyrir „music“ og „time“ — málið er ekki svo einfalt. Að mínu mati er ekki bara verið að ráðast gegn íslenskri framleiðslu heldur má líka segja að íslenskir fjölmiðlar sitji þá eftir miðað við erlenda fjölmiðla. Ég hef ekki enn rekist á þetta norræna módel sem maður hefði kannski haldið að menn væru að leita eftir í þessu ferli. Það hefði verið hægt með auknu samstarfi á milli flokka, þvert á flokka — því að öll viljum við börnunum okkar vel, unga fólkinu og fólkinu sem vill drekka í hófi — að stuðla að heilbrigðri áfengismenningu, en ekki fara þessa leið. Ég hef þá skoðun að þessi leið verði bara enn eitt yfirklórið í þessum efnum. Það hefði svo auðveldlega verið hægt að ná samstöðu um þetta mál. Mér finnst það miður.

En lengi má manninn reyna. Við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu fara vel yfir þetta í allsherjar- og menntamálanefnd, koma fram með okkar tillögur og vona að þær fái að einhverju leyti hljómgrunn.