140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurfum að bíða aðeins lengur eftir faðmlögunum en ég fagna því að við erum að nálgast í þessu máli.

Ég kem upp í seinna andsvar fyrst og fremst til að svara því að hér er ekki um einhvern kjördæmagjörning að ræða. Þetta er hugsað með hagsmuni Gæslunnar í huga, og þar af leiðandi okkar allra sem þurfum á þjónustu hennar og öryggi að halda, og ekki væri verra að bæta um leið bága atvinnustöðu á Suðurnesjum. Við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru. Það er ekki hægt að byggja upp Landhelgisgæsluna hérna til framtíðar. Það eru allir sammála um að plássið er ekki fyrir hendi fyrir flugvélarnar. Hafnaraðstaðan er í lagi enn sem komið er en hún er líka til staðar fyrir sunnan. Þar er fín hafnaraðstaða og þarf ekki að leggjast í miklar breytingar en þó einhverjar. En meginhugsun mín er að við skoðum hvort hægt sé að gera þetta í skrefum og aðskilja starfsemina í Skógarhlíðinni. Einhvern tíma kemur að því að starfsemin í Skógarhlíðinni sprengir húsnæðið utan af sér. Ef starfsemin er þá nær öll komin suður eftir liggur beinast við að færa afganginn af henni þangað. Ég held að jafnvel þó að höfuðborgin hafi ýmsum skyldum að gegna sé Landhelgisgæslan ekki slík stjórnsýslustofnun að hinn almenni borgari þurfi mikið að leita þangað eftir þjónustu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, einmitt vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, að hér sé eitt atvinnusvæði, hér á að vera eitt atvinnusvæði. Ég keyri Reykjanesbrautina á hverjum degi. Þar er tvöfaldur upplýstur og góður vegur (Forseti hringir.) sem ég vorkenni engum að þurfa að keyra daglega til að sækja vinnu.