140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

hafnalög.

66. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hér er rætt um varðar breytingu á hafnalögum, raunar staðfestingu á einum þætti í gildandi hafnalögum. Helmingur þingheims skrifar undir frumvarpið sem sýnir kannski hversu mikil og breið samstaða er um það.

Frumvarpið snýst um að ein af höfnum landsins sem ekki hefur fengið eðlilega og lögbundna styrki til að byggja upp hafnarsvæði sitt fái það, að hún sitji við sama borð og allar aðrar hafnir landsins. Þetta er höfnin í Helguvík sem er fjölnotahöfn. Hún er fiskihöfn, hún er olíuhöfn, uppsjávarfiskshöfn jafnt sem bolfiskshöfn og vöruflutningahöfn. En hún hefur oft í umræðunni verið kennd við það álver sem er í byggingu á Reykjanesi. Auðvitað mundi álverið nýta þessa höfn sem eðlilegt er en það er ekki nema einn þáttur málsins. Helguvíkurhöfn er í rauninni eina alvöruhöfn Suðurnesja. Þegar sú starfsemi verður komin í gang, þó tafir hafi orðið á af ýmsum ástæðum, bæði heimatilbúnum og óvæntum, er alveg ljóst að höfnin verður gríðarleg gullkvörn fyrir ríkissjóð því sú starfsemi sem ætlað er að byggja upp í kringum höfnina og er þegar í skipulagi og framkvæmd þó að tafir séu á, mun skila ríkissjóði að minnsta kosti einum milljarði á mánuði og munar um minna.

Það má segja að þessi bögglingur í sambandi við að Helguvíkurhöfn njóti sömu fyrirgreiðslu og aðrar hafnir landsins hafi komið upp í framhaldi af því að hæstv. fyrrverandi ráðherrar Árni M. Mathiesen, Sturla Böðvarsson og Geir H. Haarde luku ekki við verk sem hófst í þeirra ráðherratíð, luku ekki við að koma því í eðlilegan farveg. Þar með var fjandinn laus þegar þetta var gert að pólitísku bitbeini. Það er engin afsökun fyrir stjórnvöld að hunsa slíkt verkefni í pólitískum tilgangi. Þetta snýst ekki um pólitík. Þetta snýst um að sveitarfélög landsins sitji við sama borð.

Þegar Helguvíkurhöfn var byggð og settur hryggur í málið í framhaldi af því að gífurlegt atvinnuleysi varð á Suðurnesjum með brottför bandaríska hersins svo gott sem á einni nóttu, var þeim mun meiri ástæða til að ljúka þessu verkefni. Ekki er þó hægt að neita því að það voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í þáverandi ríkisstjórn sem brugðust og kláruðu ekki málið.

Í gildi er bráðabirgðaákvæði frá fyrri hafnalögum sem varðar þessar styrkveitingar. Þó að frumvarpið yrði samþykkt er ekki þar með sagt að ríkissjóður þyrfti að borga út í einu vetfangi það sem málið snýst um en það er nær milljarður kr., heldur væri hægt að dreifa því á einhvern tíma. Aðalatriðið er að fá niðurstöðu um að Reykjanesbær njóti sömu réttinda og aðrir bæir á landinu. Þetta snýst einfaldlega um það, ekkert annað. Það er auðvitað til háborinnar skammar, bæði í upphafi þessa máls og nú í stöðunni eins og hún er, að stjórnvöld skuli ekki taka af skarið og klára þetta því auðvitað verður að gera það. Annað er ekki hægt samkvæmt íslenskum lögum og menn henda ekki fyrir borð lagabókstaf sem stendur. Málið kemur nú fram annað árið í röð og lagaheimildin stendur óhögguð fram til ársins 2012. Ef ekki verður lokið við málið á þeim tíma, ef sama dugleysið ræður, ef það mun dragast, er engu að síður ekki hægt að komast hjá því að ljúka málinu.

Þetta er þeim mun alvarlegra, virðulegi forseti, vegna þess að það hallar á byggðirnar á Suðurnesjum af fyrrgreindum og skiljanlegum ástæðum. Það hallar á þær og það er auðvitað þungur róður fyrir sveitarfélag eins og Reykjanesbæ þar sem atvinnuleysi er mest á landinu að sitja uppi með nærri milljarð á sínu borði, á sinni ábyrgð á meðan atvinnustaðan er jafnerfið og ströng og hún er. Þetta er ekki til eftirbreytni. Ég treysti því að hæstv. innanríkisráðherra muni fylgja þessu máli eftir og ljúka því. Í ljósi þess sem maður hefur reynt, á löngu árabili sem við höfum unnið saman, hefur hann verið sanngjarn og tekið rökum ef þörf hefur krafið þótt hann sé á hinn bóginn allharðskeyttur í þröskuldum í kerfinu. En þröskuldar eru til að stíga yfir og hæstv. innanríkisráðherra hefur alla burði til að vippa sér yfir þröskulda. Mér finnst það líka segja svolítið mikið að nánast helmingur þingheims skrifar undir frumvarpið.

Það verður líka að segja eins og er að það er ekki til eftirbreytni eins og var á síðasta þingi þegar þetta mál var til umræðu í samgöngunefnd að hv. formaður samgöngunefndar tók málið í gíslingu. Það hef ég aldrei reynt og hef þó setið um 20 ár í samgöngunefnd. Ég hef aldrei reynt það að formaður gerði slíka hluti. Í febrúar á þessu ári var búið að ræða þetta mál allnokkuð í samgöngunefnd og meiri hluti samgöngunefndar var með því að afgreiða málið með því að láta það ganga til atkvæða í þinginu, sem er auðvitað eðlilegast. En hv. þáverandi samgöngunefndarformaður lagði til að málinu yrði vísað til ráðuneytis til frekari umfjöllunar, í ljósi þess að til stæði að breyta almennum hafnalögum. Þessi tillaga í samgöngunefnd um að vísa því til ráðuneytisins kom frá hv. þm. Róbert Marshall með því skilyrði, eins og hv. þingmaður sagði, að ákvæðið sem þetta frumvarp fjallar um væri tryggt í hafnalögunum. Það er enn þá í hafnalögunum en dettur út í lok árs 2012. Þetta var með því skilyrði að ákvæðið yrði í hafnalögum. Einnig var sagt að það tæki ekki nema fjórar til sex vikur að ljúka þessu máli í ráðuneytinu, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason tilkynnti, en ekkert gerðist.

Í stuttu máli, undirbúningsvinna að endurgerð hafnalaga og síðan niðurfelling fyrri laga á árinu 2003–2004 var mikið slys og að því kem ég í öðru máli sem er á dagskrá. En þetta leiddi til þess að menn sýndu þolinmæði um stund en enn þá, virðulegi forseti, liggur þetta mál í dvala. Ekkert hefur verið gert í því af hálfu innanríkisráðuneytisins. Tvívegis á undanförnum missirum hefur verið sett í gang eins manns vinna til að kanna einhverja hluti en út úr því hefur ekkert komið. Þess vegna verðum við að treysta því að hæstv. innanríkisráðherra taki nú af skarið og tryggi vilja til þess að málið fái eðlilega afgreiðslu og gangi til atkvæða í þinginu. Ef menn vilja greiða atkvæði um það hvort ein byggð á að vera út undan á Íslandi eða sitja við sama borð og hinar þarf að greiða atkvæði. Að öðru leyti gæti þessi þáttur verið inni í nýjum hafnalögum vegna þess að niðurfelling fyrri laga, sem ég mun koma að síðar, var einhver mesta handvömm sem ég hef kynnst á því tímabili sem ég hef verið á Alþingi og spannar nærri 30 ár. Þetta er ekki spurning um neitt annað en sanngirni og réttlæti.

Um þetta snýst málið. Helguvíkurhöfn er alhliða fiskiskipa- og vöruflutningahöfn og um leið er hún stórskipahöfn því að stóru flutningaskipin sem koma til landsins, bæði með vörur og olíu, þurfa svokallaða stórskipaaðstöðu, þ.e. dýpi og rými sem hýsir þau. Það hefur Helguvíkurhöfn nú þegar. (Gripið fram í.)

Þetta mál fer nú enn eina ferðina til hv. samgöngunefndar og ég treysti því að hæstv. innanríkisráðherra taki á því af eðlilegu brjóstviti og reynslu. Það er alveg klárt mál að sagan sýnir að sá er nú gegnir því embætti þorir að taka af skarið þegar aðrir hrekjast undan.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að þessu sinni. Helguvíkurhöfn er á lokastigi. Hún er höfn fyrir allt landið, ein af bestu höfnum landsins, en bagginn situr á herðum Reykjanesbæjar og það er miður.