140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

ljóðakennsla og skólasöngur.

75. mál
[16:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Ágæti forseti. Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og tek hjartanlega undir með henni. Ég er, eins og kom fram áðan, alin upp við mikið af tónlist og söng og móðir mín tók sér einmitt verkefni fyrir hendur fyrir löngu síðan sem hét einfaldlega Skólaljóð, þar sem hún setti tónlist við skólaljóðin og tók upp á kassettu. Maður átti að snúa kassettunni við þegar ljóðið var búið og þá gat maður sungið það bara með undirleiknum. Það var því mikið rætt um þennan kjól á ljóðið á mínu heimili og jafnframt komið með tillögur að úrbótum þannig að krakkar gætu lært ljóðin með laginu.

Svo velti ég jafnframt fyrir mér nútímanum sem við búum við. Ég hef sjálf gert töluvert margar tilraunir með því að koma ljóðum til nútímamannsins því að fólk skynjar hluti á annan hátt í dag og nær sér í upplýsingar á annan hátt en það gerði áður fyrr. Til dæmis er ein leið til að koma ljóðum til fólks að útbúa ljóðaplaggöt þannig að þau séu hluti af því sýnilega á hverjum degi. Önnur leið er að vinna með ljóðamyndbönd og ég hef unnið með skáldum sem hafa verið brautryðjendur á því sviði og notað saman tónlist, ljóð og hið myndræna. Mér finnst mjög mikilvægt ef lagt er af stað í þessa vegferð að hún sé sniðin að þeim nútíma sem við búum við og við lærum t.d. af þessari könnun um læsi. Ég ætla reyndar að fara aðeins dýpra í það í næstu lotu því að ég held að staðan sé ekki eins slæm og af er látið varðandi læsi ungra drengja.