140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

úttekt á áhrifum Schengen-samstarfsins.

73. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni, hv. þm. Árna Johnsen, fyrir að hafa lagt tillöguna fram og vekja máls á þessu Schengen-máli í þinginu.

Það er mjög mikilvægt að úttekt fari fram. Ég held að úttektin eigi líka í raun að svara því hvort við viljum vera áfram í þessu samstarfi. Ég hef miklar efasemdir um það. Vissulega er það þægilegt að þurfa ekki að veifa vegabréfinu en eins og hv. þingmaður nefndi réttilega held ég að flestir séu með það með sér þegar farið er til útlanda. Það er varla það sem mestu skiptir í þessu.

Um áramótin mun undanþága sem við höfum haft varðandi tvær þjóðir Evrópusambandsins falla niður. Það fólk er ekkert verra en annað fólk. Þeim fjölgar hins vegar til muna sem geta þá ferðast innan Schengen-svæðisins, verulega. Við þurfum að svara þeim spurningum hvort hagsmunir okkar liggi þarna eða ekki. Ég hef miklar efasemdir um hvort við eigum að halda þessu samstarfi áfram og tel þess vegna að tillagan sé mjög góð.

Því ítreka ég það í þingræðu minni og við nefndina sem fær þetta til umfjöllunar að reynt verði að svara þeirri spurningu hvort hagsmunir okkar liggi í því að vera áfram í Schengen-samstarfinu eða ekki.