140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

raforkumál á Vestfjörðum.

[10:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni, og sá ráðherra sem hér stendur og allir þingmenn líklega hér inni gera sér grein fyrir því, að þegar skoðuð er uppteiknuð myndin af tengingum raforkukerfis landsins er ansi dimmt yfir Vestfjörðum. Það er hárrétt og það er einmitt af þeirri ástæðu sem við settum á laggirnar samráðshóp með Vestfirðingum til að fara yfir þessi mál í heild sinni, koma með tillögur til mín sem var gert í fyrravetur. Fór ég síðan með þá vinnu til Vestfjarða og kynnti hana fyrir íbúunum og höfum við fengið afar góð viðbrögð við henni.

Í framhaldinu fer starfshópur enn frekar ofan í tillögurnar og ég á von á því að heimamenn taki þátt í því að senda mér forgangsröðun á lagfæringum á þessum málum fyrir vestan. Þetta skiptir öllu máli.

Við tökum þetta mjög alvarlega og það er ætlan okkar að vinna í þessum málum og gera eitthvað í þeim. Það er jákvætt að Hvalárvirkjun fær góða umsögn og er sett í nýtingarflokk í tillögum sem skilað var til okkar nýverið í tengslum við rammaáætlun. Það eru vonandi bjartari tímar fyrir Vestfirðinga hvað varðar afhendingaröryggi á raforku.

Afhendingaröryggið er samt ekki nóg að mínu mati vegna þess að Vestfirðingar þurfa að vera með í þeim tækifærum sem fram undan eru í nýtingu frekari raforku hvar sem er á landinu og þess vegna verður að mínu mati að tengja þá betur og styrkja betur tengsl þeirra við flutningskerfið. Þess vegna lögðum við í þessa vinnu og þess vegna bið ég núna um tillögur og forgangsröðun í þessum efnum frá Vestfirðingum sjálfum.